144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Nú er það sjálfsagt hyggilegt að alhæfa ekki í tilvikum sem þessum. Ég sagði í ræðu fyrr í dag að auðvitað er þetta fjölbreyttur hópur og ástæðurnar ýmsar sem leiða til þess að fólk lendir í þessari stöðu. En eitt leyfi ég mér að fullyrða, að minnsta kosti er það mín reynsla að ég þekki engan, ég þekki engin dæmi þess að fólk hafi sjálft óskað sér þess að lenda í umræddri stöðu eða vilji vera þar. Ég held að það sé alveg óskaplegur misskilningur þegar menn koma stundum og halda ræðurnar um það að atvinnuleysisbætur megi ekki vera það háar og það nálægt lægstu launum að menn séu ekki bara hæstánægðir að vera á þeim. Menn gætu sjálfsagt sagt sama um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum, að hún verði að vera svo naum að menn bara kveljist í þeirri stöðu. Er það samrýmanlegt við það að einhverjir óski sér þess að vera þar? Ég held ekki.

En já, það er örugglega fólk sem hefur lent þar og einhverjir eru þarna enn þá vegna m.a. áfallanna í íslensku samfélagi. Það ætti að leggja okkur enn ríkari skyldur á herðar að reyna að vinna með og vinna úr þessum málum, en þó er það auðvitað athyglisvert sem hv. þingmaður segir hvað þetta hlutfall hefur haft tilhneigingu til þess að vera á svipuðu róli. Það er kannski veruleiki sem við verðum hreinlega að horfast í augu við í okkar samfélagi, að við verðum alltaf að reikna með því að þannig vandamál séu til staðar hjá einhverjum tilteknum fjölda eða tilteknum hópum að taka þurfi á því alveg sérstaklega.

Það sem ég óttast mest í þessu er að fara að reyna það sem hér á að gera, að meta vinnuhæfnina, hvort menn séu vinnufærir að hluta eða ekki, vegna þess að maður þekkir svo mörg dæmi. Enginn óskar sér að vera í slíkri stöðu en það er hægara sagt en gert að komast úr henni þegar menn hafa lent þar og jafnvel verið lengi. Þau vandamál eru ekki alltaf sýnileg og menn bera þau ekki utan á sér. Ég þekki dæmi um einstakling sem hefur alveg getað harkað af sér og farið í viðtöl. (Forseti hringir.) Hann gæti sjálfsagt þraukað í gegnum eitthvert vinnufærnismat, en kvíðaköstin á kvöldin og nóttunni eru óviðráðanleg þannig að hann er lamaður af þreytu og óvinnufær á morgnana. (Forseti hringir.) Viðkomandi ber það ekki utan á sér.