144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í fyrri ræðu fór ég ágætlega yfir andstöðu mína við þetta frumvarp og ég vil halda örlítið áfram, fara á aðeins aðrar brautir. Frá örófi alda hefur verið litið svo á að ungdómurinn hverju sinni væri svolítið á leið í hundana. (ÖS: Alltaf verið sagt.) Ef við hugsum nú um 68-kynslóðina sem var komin með allt of sítt hár og farin að hlusta á Bítlana og hvað veit ég, þá varð sú kynslóð mun menntaðri en foreldrar hennar og hefur almennt vegnað vel í samfélaginu. Í ræðu áðan var einmitt vísað í ungt fólk sem ekki næði fótfestu og þyrfti að hjálpa til náms og vinnu.

Það er vissulega rétt að stækkandi hópur ungmenna á erfiðara með að ná fótfestu á vinnumarkaði. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið að hindra aðgang fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólum og að stytta atvinnuleysisbótatímabilið og ætla jafnframt að leyfa að það verði búið til nýtt atvinnuleysisbótakerfi í félagsþjónustunni. Ég held að þegar við horfum á það unga fólk sem er í vanda þá eigum við að varast að gera ungmennin að vandamálinu heldur eigum við að horfa á það samfélag sem þau búa í og þann vinnumarkað sem við viljum hvetja þau til þess að fara út á.

Á vefmiðlunum í dag eru tvær fréttir, þær eru eflaust fleiri ef maður fer aftur í tímann en bara í dag eru tvær fréttir, önnur um versnandi kjör ræstingafólks sem var sagt upp í Stjórnarráðinu, konum. Þeim var sagt upp sem opinberum starfsmönnum, svo var ráðið inn fólk frá einkafyrirtækjum sem greiða lægri laun en vinnan er jafnframt meiri. Hin fréttin er um starfsfólk Primera Air sem hefur verið í flugi hingað til lands. ASÍ mótmælir mjög aðför að réttindum launafólks hjá því fyrirtæki og hvetur stjórnvöld til þess að beita ákvæðum úr lögum um starfsmannaleigur og lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra — þetta er langur titill á lögum. Sívaxandi hópur fólks vinnur í svartri atvinnustarfsemi því að laun eru ekki gefin upp og fer því á mis við réttindi, þekkir jafnvel ekki nægilega vel réttindi sín, og þarna eru fórnarlömbin fyrst og fremst ungt fólk og innflytjendur. Fjöldi fólks býr við það að vera í ólöglegri verktöku því að það fær ekki ráðningu hjá þeim fyrirtækjum sem það vinnur hjá og tímabundnar ráðningar eru mjög algengar. Atvinnuöryggi er því miklu minna en við ættum að ætlast til í velferðarþjóðfélagi eins og við viljum að Ísland sé.

Á sama tíma og gera á auknar kröfur á fólk sem er hvað fátækast og í hvað slakastri stöðu, auknar kröfur sem eru einhvers konar hugarfóstur eða móralísering um að fólk eigi að herða sig og standa sig betur, þá hætti það að þurfa á aðstoð að halda, í staðinn fyrir bara að mæta því og aðstoða það, þá eru ríkustu einstaklingarnir að verða ríkari. Og það er með ólíkindum að við séum yfir höfuð að ræða þetta þegar þau 5% sem mest eiga af eigin fé í samfélaginu eiga 47,8%. Þá eru hlutabréf þeirra á nafnvirði og fasteignir þeirra samkvæmt fasteignamati, þannig að þessi hópur er enn ríkari en þetta.

Það er jafnframt vaxandi umræða í erlendum miðlum um fólk sem er fast í vítahring einhvers konar virkniúrræða. Ég segi: Ég hvet ríkisstjórnina til þess að sækja tekjur í formi skatta þangað sem þá er að sækja og ég hvet ríkisstjórnina til þess að tryggja réttindi launafólks og stuðla að því að þeir sem mest þurfa á hjálp að halda fái hana og hætta að hóta fólki því að svipta það lífsviðurværinu.