144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Áhrifin verða eflaust þau til skamms tíma að það verður einhver sparnaður hjá sveitarfélögunum. En samfélagslegi kostnaðurinn af því að eyðileggja kerfið með þessum hætti verður auðvitað mun meiri til lengri tíma.

Nú get ég ekki vitnað af öryggi í erlendar rannsóknir en ég hef kynnt mér þetta og í rannsóknum bæði frá Bandaríkjunum og Bretlandi er sýnt fram á að skilyrðingar af þessu tagi og svona vinna fyrir peninga breyta ekki miklu fyrir fólk. Það þarf að beita allt öðrum aðferðum. Það verður náttúrlega verkefni velferðarnefndar, eða okkar sem erum á móti þessu í velferðarnefnd að kalla eftir rökstuðningi og fræðilegum úttektum á því hvaða áhrif breytingarnar hafa.

Það sem ég óttast og ætti að brýna okkur sem erum á móti þessu máli, er að þetta sé bara fyrsta skrefið. Næsta skrefið verði sjúklingar eins og öryrkjar. Það hefur verið talað um starfsgetumat árum saman, og ég verð andsnúnari því og andsnúnari. Þá er verið að segja að það eigi að líta á þetta jákvæðum augum, og það er að sjálfsögðu rétt að það á að gefa fólki sem er vegna langvarandi veikinda öryrkjar tækifæri til þátttöku í samfélaginu eftir getu. En að fara að sníða framfærslukerfin eftir því — þetta verður einhvers konar skilyrðing að lokum. Og ég hræðist það mjög og finn að það er full ástæða til þess að við sem erum á móti þessum breytingum búumst til varnar og reynum að hindra þetta.