144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra séum sammála því að við viljum að þessi stuðningur sé til staðar, en okkur greinir á um ábyrgð okkar sem samfélags og ábyrgð sveitarfélaganna þar af leiðandi og hvað löggjafinn á að gera til þess að tryggja að sveitarfélög geti ekki hent fólki út af fjárhagsaðstoð ef það fellur ekki nákvæmlega að því regluverki sem verið er að skilyrða gagnvart. Það er hægt að vera með vinnumarkaðsúrræði og halda utan um fólk með félagsþjónustu, sálfræðiaðstoð og ýmissi aðstoð sem viðkomandi aðilar þurfa á að halda án þess að hafa þetta refsiákvæði inni. Út á það gengur mín gagnrýni fyrst og fremst, að vera ekki að skilyrða aðstoðina með refsivönd á lofti.

Hæstv. ráðherra væri í lófa lagið að leggja fram frumvarp sem heimilaði sveitarfélögum ekki að henda fólki út af fjárhagsaðstoð við sérstakar aðstæður. Það væri hægt að skilyrða þannig að fólk ætti að sækja þessi virkniúrræði hvort sem það væri í menntun eða hvað prógramm á vegum Vinnumálastofnunar í samvinnu við sveitarfélög sem væri sett upp. Það kom fram áðan í máli hv. þingmanna að hægt væri að gera þetta með jákvæðum formerkjum, að aðstoðin væri jafnvel aukin eitthvað ef fólk væri á þessum virkniúrræðum. En það þarf líka að bjóða ókeypis sálfræðiaðstoð og annað slíkt (Forseti hringir.) fyrir viðkomandi aðila.