144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður, mér finnst þær mjög mikilvægar; ég er mjög hugsi yfir þessu, hef miklar áhyggjur. Mig langaði að spyrja hv. þingmann og jafnframt þakka henni fyrir ræður um þá hryllilegu lausn sem hæstv. velferðarráðherra hefur boðið upp á: Hvað verður um þá sem eru með ranga kennitölu ef þeir fá ekki vinnu og eru þvingaðir í vinnuúrræði sem jafnvel hentar þeim alls ekki? Hvað verður um þetta fólk? Og hvernig getum við hjálpað til? Er nauðsynlegt að fara í heildræna úttekt á því hvernig hægt er að fyrirbyggja að fólk lendi á milli kerfisklasa og kremjist þar á milli eða hverfi í eitthvert hyldýpi? Það er alveg ljóst að maður leysir ekki langvarandi vandamál með því að þvinga fólk inn í einhverjar lausnir sem því henta jafnvel ekki.

Ég er sannfærð um að þeir sem hafa verið lengi á atvinnuleysisbótum og hafa þurft að segja sig til sveitar vilja vinnu. Þeir þurfa að vera í mjög virkri atvinnuleit á meðan þeir eru á atvinnuleysisbótum en af einhverjum ástæðum hafa þeir ekki fengið vinnu. Það er ekki út af því að þá langi ekki í vinnu heldur fá þeir ekki vinnu. Ég ætla að fara aðeins ítarlegar yfir ýmis undarleg úrræði sem Vinnumálastofnun hefur ætlað að fara í gagnvart fólki með ranga kennitölu í síðara andsvari.