144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér sýnist að búa eigi til drauga í kerfinu. Ég veit um stóran hóp drauga í kerfinu, til dæmis flóttamenn, og nú á að búa til annan hóp af draugum í kerfinu. Það hryggir mig óendanlega að svona lagað komi frá þessum tiltekna ráðherra og að þessi hæstv. ráðherra verji þennan gjörning.

Ekki heyrði ég hæstv. ráðherra mótmæla þegar fyrirvaralaust var ákveðið að skerða rétt fólks til atvinnuleysisbóta um hálft ár með tíu daga fyrirvara. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún viti til þess að gerð hafi verið úttekt á því hvað verður um alla þessa aðila. Það var búið að vara við, um leið og atvinnuleysistölur fóru svona hátt upp, því að það mundi skapast viðvarandi vandamál fyrir þá sem hafa lengi verið án atvinnu.

Það er mjög erfitt að fara aftur inn á vinnumarkað. Hvernig er verið að aðstoða þetta fólk? Á að svelta það til hlýðni, er það leiðin til árangurs? Eða væri nær að reyna að fara mildari leið, opna faðminn og hjálpa þeim sem virkilega þurfa á því að halda? Ég þekki of margar sögur til þess að geta horft fram hjá því að þeir sem búa við sára fátækt þurfa síst af öllu að horfa fram á enn meiri óvissu, enn meiri barning og enn meira hungur.