144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að vonast til þess að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra tæki iðnaðarráðherra sér til fyrirmyndar og galopnaði þetta mál að eigin frumkvæði svo að nefndin fengi það í nesti. Ég ber þá von enn í brjósti þegar hún kemur í sína síðari ræðu að hún leggi það til að frumvarpið verði skoðað með opnum huga. Ég held að greiningin eins og á þeim aðilum sem nú þegar hafa verið beittir þessu úrræði, þ.e. sá hópur sem þáði ekki vinnu eða eitthvað slíkt — einhverjir hurfu, er sagt. Ég dreg það ekki í efa að eflaust eru einhverjir í kerfinu sem ekki eiga þar heima sem og í öðrum kerfum. Þess vegna segi ég að þetta leysi aldrei 100% neinn vanda.

Er í lagi að setja fram lög sem byggja á úrræði sem eitt eða tvö sveitarfélög hafa prófað í mjög skamman tíma? Það má velta því fyrir sér. Þetta horfir þannig við manni, eins og hv. þingmaður sagði, að verið sé að svelta fólk til hlýðni. Ég held að ríki og sveitarfélögum beri skylda til að sameinast um það að bjóða þeim sem þetta snertir og eru hvað veikastir fyrir meðal annars þau úrræði sem hér eru talin upp, mínus þessa skerðingu. Ég held að það þurfi að gera. Það er ekkert mál að laga lögin þannig að sveitarfélögin komi svipað fram við þegna sína með sambærilegum viðmiðunarkostnaði. Ég tek undir það sem sagt var hér áðan að það eigi að leiða til hækkunar á framfærslu en ekki til lækkunar. Ég get ekki séð að fólk eigi að lifa hér af 50–60 (Forseti hringir.) þúsund kr. á mánuði. Mér finnst það óforsvaranlegt. (Gripið fram í.)