144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Lögin nr. 40/1991, sem verið er að breyta með þessu frumvarpi, voru mjög vel unnin og það er ákaflega gagnlegt að lesa greinargerðina með því frumvarpi. Eins og ég hef sagt nokkrum sinnum hér í þessu samhengi þá var mikið fagnaðarefni og mikil tímamót þegar þau lög voru sett. Þá var litið á það sem almenn réttindi að njóta félagsþjónustu og að hjálpa ætti fólki til sjálfsbjargar, mæta fólki þar sem það væri statt og tryggja öllum mannlega reisn. Það var verið að breyta umhverfinu þannig að þetta væri réttur hvers og eins og samfélaginu bæri skylda til þess að tryggja að fólk héldi virðingu sinni, að ekki væri hægt að níðast á fátæku fólki.

Félagsráðgjafafélag Íslands telur að til að tryggja félagslegt öryggi um fjárhagsaðstoð sé nauðsynlegt að tilgreina eitthvert lágmark, t.d. miðað við greiðslu almannatrygginga. Félagsráðgjafafélagið þekkir málið og er búið að vera að vinna í því og veit alveg að það þarf að slá varnagla til þess að tryggja réttindi fólks.

Félagsmálastjórar hafa áhyggjur af því að stundum skorti félagslegt innsæi hjá sveitarstjórnarmönnum og í minni sveitarfélögum geti einstaklingum reynst erfiðara að fá aðstoð og þeir þurfi oft að flýja sveitarfélagið.

Nú spyr ég þingmanninn sem kemur úr minna sveitarfélagi en Reykjavík: Heldur hún að þessu ákvæði verði beitt með öðrum hætti og það kunni að verða (Forseti hringir.) erfiðara fyrir einstaklinga í minni samfélögum að lenda í mati og skilyrðingum, (Forseti hringir.) að það kunni að verða harðara?