144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Það er nefnilega enn erfiðara í minni sveitarfélögum að leita til sveitarfélagsins. Enginn fer með glöðu geði og óskar eftir fjárhagsaðstoð. Það eru erfið skref. Þau koma í kjölfar áfalla og vandamála og erfiðleika. Við erum öll þannig gerð að við viljum halda mannlegri reisn og við viljum ekki vera öðrum háð. Auðvitað búum við í samfélagi og viljum taka ábyrgð hvert á öðru en ólíkt því sem þetta frumvarp gengur út frá, að það sé einhver hópur fólks sem sé bara að veslast upp því að hann hafi ekki döngun í sér til neins annars, þá vill fólk ekki vera í þessum aðstæðum enda varir það að jafnaði í stuttan tíma.

Ég tel okkur vera að fara aftur til gamla tímans. Þetta er nægilega erfitt í dag en við erum að auka á jaðarsetningu þeirra sem þurfa aðstoð sveitarfélagsins.

Ég hef búið í minna sveitarfélagi en Reykjavík og ég veit að þar þekkist fólk og veit hvert af öðru þannig að þó ég hafi verið að vitna í tölur af höfuðborgarsvæðinu og þar séu flestir þá ber okkur skylda til að hugsa um alla og huga að því að vernda fólk og frelsi þess eftir því sem okkur er framast unnt.