144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

stýrivextir og stöðugleiki á vinnumarkaði.

[10:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum þótt efnisrök væru fyrir lækkun í ljósi þeirrar óvissu sem er við lýði um úrslit kjarasamninga sem nú standa fyrir dyrum. Þegar maður horfir yfir sviðið blasir það við af yfirlýsingum forustumanna aðila vinnumarkaðarins síðustu vikuna að ábyrgðin á þessu ástandi er að stórum hluta til hjá ríkisstjórninni. Þannig segir forseti Alþýðusambandsins í morgun að það sé súrt að á meðan sjúklingar þurfa að greiða hærri gjöld og taka meiri þátt í kostnaði sé horft upp á að auðlegðar- og auðlindaskattar séu ekki nýttir til að koma til móts við þá verst settu í þjóðfélaginu. Þetta er ónýtt tækifæri til að jafna bilið og skapa meiri sátt í samfélaginu.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tekur enn dýpra í árinni í pistli á vefsíðu samtakanna í síðustu viku. Hann segir að skýringanna á því uppnámi sem nú er orðið á vinnumarkaði, sem hann kallar alvarlega stöðu á vinnumarkaði, sé að leita í launaþróun af hálfu opinberra aðila og samskipta stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Mikið ójafnvægi hafi myndast á vinnumarkaði, ríkisstjórnin hafi algjörlega horfið frá hefðbundnu þríhliða samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, ekki staðið við þátttöku í umsömdum eða lögbundnum verkefnum, skert rétt til atvinnuleysisbóta og svo mætti lengi telja. Hann spyr hvað ríkisstjórnin sé í reynd reiðubúin að gera til að koma í veg fyrir að við stöndum núna frammi fyrir endalokum sjaldséðs og langþráðs stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra eftir svari við þessari spurningu: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera þegar við sjáum að Seðlabankinn treystir sér ekki til að lækka stýrivexti vegna þeirrar stöðu sem upp er komin? (Forseti hringir.)