144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

stýrivextir og stöðugleiki á vinnumarkaði.

[10:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Afstaða aðila vinnumarkaðarins er þveröfug. Þeir vísa á ríkisstjórnina. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki litið fram hjá því að það sem kynt hefur mest undir þessu báli eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar eins og ég rakti áðan, yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra sem hefur sagt að þeir samningar sem hafa verið gerðir hafi ekki hækkað lægstu laun nægilega mikið og hið sama hefur hæstv. félagsmálaráðherra sagt. Hæstv. fjármálaráðherra hefur síðan gert kjarasamninga og getur hvorki afneitað ábyrgð sinni á þeim kjarasamningum né þessum yfirlýsingum.

Það er líka staðreynd málsins að Seðlabankinn treystir sér ekki til að lækka stýrivexti og heldur íslensku atvinnulífi og íslenskum heimilum í kyrkingaról hárra stýrivaxta, 4,5%, þegar verðbólga er innan við 1% vegna stefnuleysis ríkisstjórnarinnar. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Skilja aðilar vinnumarkaðarins bara ekki ríkisstjórnina? Hverju svarar hann þeim athugasemdum sem ég rakti áðan, efnislegum athugasemdum um aukna (Forseti hringir.) misskiptingu vegna skattaaðgerða ríkisstjórnarinnar og skort á samskiptum við aðila vinnumarkaðarins sem forustumenn aðila vinnumarkaðarins hafa sett fram?