144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

stýrivextir og stöðugleiki á vinnumarkaði.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hvað hefur ríkisstjórnin lagt af mörkum til að skapa það ástand sem hér hefur myndast að undanförnu með lágri verðbólgu, traustara lánshæfismati, betri kjörum fyrir ríkissjóð og lægri vöxtum? Vextir Seðlabankans hafa lækkað. Jú, við höfum gert kjarasamninga eins og almenni markaðurinn. Þeir hafa verið í takt við það meginmerki sem var myndað hérna haustið 2013, yfir 90% samninga ríkisins á síðasta ári eru innan þess ramma.

Kjaraþróun opinberra starfsmanna síðustu tíu árin sýnir að opinberi markaðurinn, ríkisstarfsmenn sérstaklega, er á eftir almenna markaðnum. Þar hefur launaskriðið verið ef um eitthvert launaskrið er að ræða. Við höfum lækkað skatta, við höfum ráðist á skuldastöðu heimilanna og eignastaða heimilanna er að batna. Við erum að reka ríkissjóð án halla, með afgangi sem sagt. Öll þessi atriði eru lykilstærðir í því að skapa þann efnahagslegra stöðugleika sem hér hefur orðið. Ég hafna því alfarið að hér sé eitthvert það ástand sem eigi að gera aðilum vinnumarkaðarins sérlega erfitt með að ná saman raunhæfum ábyrgum kjarasamningum. Sú staða er ekki uppi. Það er ekki eins og menn séu að verja sig fyrir einhverri framtíðarverðbólgu. Hún er engin í spánni.