144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er engin launung á því að það er búið að vinna að þessu í alllangan tíma. Upphafið má rekja til ársins 2010 þegar fyrrverandi ríkisstjórn setti á laggirnar samráðsvettvang, sáttanefnd. Í stjórnarsáttmálanum er síðan talað um að útfæra þá samningaleið sem menn eru þó sammála um þar. Menn urðu ekki sammála um alla hluti en urðu sammála um meginlínur. Það er talað um þá leið í stjórnarsáttmálanum og samkvæmt henni hef ég unnið alla tíð síðan.

Þar er meginmarkmiðið að reyna að ná víðtækri sátt og það er auðvitað sérstakt að horfa til þess að mér finnst hafa tekist býsna vel að halda áfram samtalinu við ólíka hagsmunaaðila innan útgerðarinnar, meðal atvinnurekenda jafnt sem launþega, innan þeirrar stéttar, og náðst ákveðinn skilningur á því að við séum að vinna í rétta átt að lausn þeirra þriggja þátta sem snúa að því að þjóðin sé eigandi auðlindarinnar, að útgerðin fái nægjanlegan fyrirsjáanleika og stöðugleika til lengri tíma og að veiðigjöldin séu hluti af þessari þríliðu.

Það er hins vegar engin launung á því að innan stjórnmálaflokkanna eru ólíkir hagsmunir. Það kom berlega í ljós þegar ég kynnti málið fyrir stjórnarandstöðunni og auðvitað samstarfsflokknum. Ein af ástæðunum fyrir því að málið er ekki enn komið hingað inn er að við erum að leita eftir víðtækari sátt um að leysa þessi þrjú vandamál, þessi verkefni sem við höfum staðið frammi fyrir á grundvelli sáttanefndarinnar, í framhaldi af því. Það er áskorun til okkar stjórnmálamanna hvort við séum tilbúin að taka þátt í slíku, að tryggja ákveðinn stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir atvinnugrein til að höggva á þau vandamál sem hafa snúið að nýtingarréttinum og að tryggja einnig fyrirsjáanleikann hvað varðar veiðigjöldin í rekstri fyrirtækjanna og tekjum almennings af auðlind sinni.