144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

lífeyrismál.

[11:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en vil þó skýrari svör. Ég geri mér grein fyrir að þessi vinna hefur staðið lengi og er flókin, en mér finnst það áleitnar spurningar hvort það lífeyriskerfi sem við búum við sé í raun sniðið að þeim vinnumarkaði sem við búum við í dag. Það verður að fara í gagngera endurskoðun á þessu því að launafólk í þessu landi er skuldbundið samkvæmt lögum til að greiða drjúgt hlutfall launa sinna inn í þetta kerfi mánaðarlega, kerfi sem tapaði hundruðum milljarða í hruninu og kerfi sem er nú lokað inni í gjaldeyrishöftum sem takmarka möguleika þess til ávöxtunar og hefur mjög erfið áhrif á efnahagskerfi landsins.

Ég vil endurtaka spurningarnar um hvort ekki sé ástæða til að endurskoða fyrirætlanir um séreignarsparnaðinn og hvort ásættanlegt sé að kynbundinn launamunur aukist á lífeyrisaldri.