144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

lífeyrismál.

[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég trúi því nú varla að hv. þingmaður búist við því að ég telji það ásættanlegt en það er hins vegar afleiðing af kynbundnum launamun á starfsævinni. Hann birtist aftur á lífeyristökualdrinum.

Hér er bent á ýmsa ágalla á lífeyrissjóðakerfinu og að það kunni að vera fólgin í því áhætta að vera með þessa sjóðsöfnun, vísað var til þess að miklir fjármunir hefðu tapast. (Gripið fram í.) Og að höftin séu til vandræða, það er alveg rétt.

Það er hins vegar svo að nýleg úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lífeyrissjóðakerfinu á Íslandi sýnir að við erum þó með eitt besta kerfið sem fyrirfinnst og að líkurnar á því að fólk njóti sem hæsts hlutfalls launatekna sinna á starfsævinni eru háar á Íslandi borið saman við önnur lönd.

Við þurfum að halda áfram að þróa þetta kerfi, stoppa í götin á því. Við þurfum að losna við höftin til að dreifa betur áhættunni í lífeyrissjóðakerfinu og jafna réttindi milli opinbera kerfisins og þess almenna. Eitt stærsta vandamálið sem ég sé við kerfin í dag er að þegar áföll dynja yfir þarf að skerða réttindi í almenna kerfinu en á sama tíma þurfum við að nota skattfé til að standa undir ábyrgð ríkisins á opinbera kerfinu.