144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram þaðan sem frá var horfið í gær í umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.e. um skilyrði fjárhagsaðstoðar. Það hefur verið nokkuð áhugavert að fylgjast með því hvernig umræðunni um málið hefur undið fram hér í þingsal en umræðan hefur einmitt orðið til þess að draga fram ákveðin ólík grundvallarsjónarmið.

Það hefur enginn að því er ég hef best heyrt gert neinn ágreining um það að virkni fólks sé gríðarlega mikilvæg. Það sem ágreiningurinn snýst hins vegar um er það hvernig við höldum fólki eða eftir atvikum komum fólki í virkni. Orðalag á borð við það að fólk þurfi örlitla hvatningu til að koma sér af stað er dæmi um það sem sagt hefur verið í umræðunni og að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að við séum ekki með refsikerfi þar sem fólki er refsað fyrir ónóga virkni, með því að taka af því fjárhagsaðstoð ef það uppfyllir ekki ákveðin skilyrði sem því eru sett. Mér hugnast mun betur að koma með jákvæða hvata og ein hugmynd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kastaði fram í umræðunni var að setja ákveðið lágmark sem allir fengju greitt og svo væri mögulega hægt að byggja ofan á það með einhverjum virknihvötum. Það hugnast mér mun betur því að ég er þeirrar skoðunar að við verðum að tryggja ákveðna lágmarksframfærslu fólks og það er einmitt vegna þeirrar trúar minnar að ef við ætlum að fækka fátæku fólki, og þiggjendur fjárhagsaðstoðar eru svo sannarlega fólk sem býr við mjög bágar fjárhagslegar aðstæður, þurfum við á sterku félagslegu kerfi að halda sem aðstoðar fólk til betra lífs en refsar því ekki til enn meiri fátæktar.

Ég hefði því frekar viljað sjá frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þar sem ákveðið gólf væri skilgreint í fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, þ.e. samræmd lágmarksframfærsla sem væri sett inn sem viðmiðunarfjárhæð. Það er reyndar talað í 1. gr. um viðmiðunarfjárhæð en aldrei nefnt hver sú fjárhæð eigi að vera. Þetta getur verið mjög ólíkt á milli sveitarfélaga þannig að það er eitthvað sem ég hefði gjarnan viljað sjá sem byrjunarpunkt í umræðu um þetta mál en ekki að byrja á því að setja virkniskilyrðingar fyrir fjárhagsaðstoðinni sem ég tel líklegar til að leiða til enn verri fjárhagslegrar sem og félagslegrar stöðu fólks.

Á ráðstefnu velferðarvaktarinnar var til dæmis gestur frá Danmörku sem miðlaði af reynslunni í Danmörku þar sem það hefur sýnt sig að þegar fólk er tekið af fjárhagsaðstoð vegna virkniskilyrðinga ýtir það því fólki enn lengra út á jaðar samfélagsins og dæmir það í rauninni úr leik þegar kemur að þátttöku því að fólk í svona félagslega viðkvæmri aðstöðu á það til að líta á þetta sem refsingu en ekki hvatningu. Þar af leiðandi tel ég að hér sé farin kolröng leið.