144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessar góðu spurningar sem ég á hins vegar dálítið erfitt með að svara, því að þetta er vissulega mjög snúin staða. Hverjum er hægt að senda umsögn um málið? Það eru ekki til svo ég viti hagsmunasamtök fólks sem þiggur fjárhagsaðstoð, því miður, mundi ég vilja segja, því að þetta er svo sannarlega hópur sem þyrfti á því að halda að geta verið í hagsmunabaráttu. En eðli málsins samkvæmt, eins og hv. þingmaður benti á, staldrar fólk oft stutt við á þessum bótum, þó svo að hópurinn sem hefur þar lengri viðkomu virðist því miður vera að stækka.

Annað er að hér er um að ræða fólk sem er í mjög jaðarsettri stöðu og sem kannski hefur ekkert verið allt of áfjáð í að koma fram opinberlega og viðurkenna stöðu sína út á við í samfélaginu. Ég held að við í nefndinni þurfum að leggjast mjög ítarlega yfir það hvert við eigum að senda málið út til umsagnar þannig að við fáum að heyra rödd þessa fólks sem frumvarpið kemur til með að ná yfir milliliðalaust. Það eru hins vegar ýmsir milliliðir sem koma að málefnum fólks sem fær félagslega aðstoð frá sveitarfélögum, svo sem velferðarvaktin, þjóðkirkjan, mæðrastyrksnefnd, það eru til ýmsir slíkir aðilar sem þekkja mjög vel til stöðu þess. Hvernig við fáum að heyra rödd þeirra milliliðalaust, ég get ekki svarað því hér og nú, en ég tel mjög mikilvægt að nefndin leggist vel yfir það (Forseti hringir.) og skoði hvort við getum á einhvern hátt náð til þeirra beint.