144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst örstutt varðandi anda laganna. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að þetta breytir anda þeirra. Það að koma með skilyrðingar inn í lög um fjárhagslega aðstoð finnst mér ekki vera í þeim anda að vera þetta lokaöryggisnet sem á að grípa einstaklinginn þegar farið hefur að halla undan fæti í virkni og atvinnuþátttöku og samfélagsþátttöku.

Hvað varðar undirbúning vegna frumvarpsins veit ég svo sem ekki meira um hann en það sem hægt er að lesa í fylgigögnum með frumvarpinu. Þar hef ég einmitt tekið eftir því að talsvert er talað um að þetta frumvarp mundi hafa jákvæð fjárhagsleg áhrif á hag sveitarfélaga. Það kann vel að vera og ekki ólíklegt því að það munu mögulega einhverjir hætta að fá fjárhagsaðstoð.

Eins er í fylgiskjali frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sagt að hér sé eingöngu fjallað um áhrif lagasetningarinnar á fjárhag ríkissjóðs. Það sem mér finnst skorta er frekari greining og að kalla eftir upplýsingum frá nágrannalöndum okkar, sem hafa farið í virkniskilyrðingar, á því hvaða samfélagslegu áhrif þetta hefur á þann hóp sem einhverra hluta vegna hefur ekki viljað fara í virkniúrræði. Hvað verður um hann, hver verður staða hans á eftir? Mér finnst skipta alveg rosalega miklu máli í þessu að við getum ekki bara (Forseti hringir.) hent fólki út af fjárhagsaðstoð og litið svo á að þar með sé sá hópur úr sögunni.