144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er mjög ánægð með þá umfjöllun sem þetta mál hefur fengið. Þeim mun dýpra sem ég ræði og velti fyrir mér afleiðingunum, sér í lagi versta ákvæðisins, vil ég leggja til við hæstv. ráðherra að opna á að hægt verði að fella út sektarákvæðið. Það er ekki hægt í siðuðu samfélagi að svelta fólk til hlýðni. Það er ekki hægt. Mér finnst þetta ekki boðlegt. Mér finnst ekki boðlegt að við sem hér segjumst vera í velferðarsamfélagi ætlum að koma til móts við ómannúðlega tilraun til að ná í fé í ríkiskassann með því að minnka rétt fólks til atvinnuleysisbóta, rétt sem fólk hefur áunnið sér, taka hálft ár í burtu af þremur. Skyndilega stóð fólk frammi fyrir því um jólin með tíu daga fyrirvara að það átti ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Auðvitað kom þetta sér illa fyrir sveitarfélögin. Ég skil að sveitarfélögin vilji fá eitthvað í staðinn. Þetta er excel-pólitík sem við tökum ekki þátt í hér. Ég trúi því ekki upp á hæstv. ráðherra að henni finnist þetta vera eitthvað sem hún standi og falli með. Ég trúi því ekki.

Sem betur fer eru margir þingmenn hér að vakna við þennan vonda draum. Það er ljóst að þetta mál mun þurfa ítarlega meðferð í velferðarnefnd þar sem verður meðal annars farið yfir skýrslu velferðarvaktarinnar sem fjallar um fátækt á Íslandi. Það er þannig í okkar litla samfélagi að kerfið er orðið svo flókið að allt of margir falla í holurnar. Fólk hverfur ekki úr fátækt með því að taka af því réttinn til bóta. Það sekkur bara enn dýpra. Við getum ekki verið þekkt fyrir að gera það í staðinn fyrir að efla úrræði til virkni hjá fólki sem er búið að vera atvinnulaust til langs tíma. Ætlum við að pína fólk til að taka að sér vinnu sem það er ekki í stakk búið til að sinna? Það hafa ekki farið fram nægilegar rannsóknir á velferðarþættinum í þessu máli. Það hafa jú farið fram ágætar rannsóknir á kostnaðarliðnum og hvað sé hægt að spara á þessu. En maður sparar ekki til langs tíma með því að brjóta mannréttindi, maður gerir það ekki. Hver einasta manneskja sem hefur einhvern tímann upplifað það til langs tíma að þurfa að telja hverja einustu krónu um mánaðamót og jafnvel löngu fyrr veit í hjarta sínu að sú tillaga að svelta fólk til hlýðni er ómannúðleg og skammarleg.

Ég mun gera allt sem ég get til að hvetja hæstv. ráðherra til að snúa af þessari leið og hvetja þingmenn meiri hlutans, sem eiga sæti í velferðarnefnd, til að skoða þessi mál mjög vandlega og fella út þetta ómannúðlega ákvæði og fara í betri rannsókn á því hvernig hvetja megi fólk og styrkja það til úrræða. Það er þekkt að þeir sem hafa verið lengi atvinnulausir eiga mjög erfitt með að komast inn á vinnumarkað aftur. Það er líka þannig ástand í mörgum sveitarfélögum hérlendis að atvinnuleysi er viðvarandi. Við þurfum að finna einhverjar aðrar lausnir á því.

Ég biðla til hæstv. velferðarráðherra að gefa okkur þingmönnum fyrirheit um það, eftir að hafa hlustað hér á ræður þingmanna sem hafa miklar áhyggjur eru af þessu máli, sérstaklega ákvæðinu um að fella niður helming mánaðarlegra greiðslna, að hún styðji að ákvæðið verði tekið út.