144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum Birgittu Jónsdóttur ræðuna. Sveitarfélögin eru mörg í þessu landi og misvel í stakk búin til að takast á við verkefni sín en flest þeirra veita fyrirmyndarþjónustu á ýmsum sviðum. Með erfiðleikum í efnahagslífinu hefur það sýnt sig að hlutfall fólks á fjárhagsaðstoð hækkar. Svo lækkar það hlutfall aftur þegar aðstæður batna. Núna urðum við fyrir hruni fjármálakerfisins, gjaldmiðilsins og trausts almennt í samfélaginu sem hefur meiri langvarandi áhrif.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hún telji viðbrögð ráðherra eðlileg. Hún hefur lesið hér upp lista yfir þau sveitarfélög sem beita skilyrðingum, sem er mjög vafasamt og ekki talin vera traust lagastoð fyrir því. Ráðherra bregst þá við með því að veita þeim þessa lagastoð. Við sáum að málefni ferðaþjónustu fatlaðs fólks eru í ólestri og enginn sem getur sætt sig við þá aðstöðu. Ráðherra er búin að kalla fólk á sinn fund og það er mikið uppistand, sem eðlilegt er. Hefði ekki verið eðlilegra að ráðherra hefði sýnt sömu viðbrögð gagnvart þessum hópi fólks og mætt sveitarfélögunum með einhvers konar leiðum til að fjármagna fjárhagsaðstoðina í staðinn fyrir að heimila þeim skilyrðingar?