144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Nei, ætli það sé ekki frekar svo að þeir sem hafa hvað mest séu að verða latari, hysknari og við þyrftum kannski að setja fókusinn á af hverju bilið á milli þeirra sem hafa minnst og þeirra sem hafa mest er alltaf að aukast.

Ég hef sérstakar áhyggjur af nokkrum tilteknum hópum sem munu finna fyrir þessari lagabreytingu. Það eru hópar eins og til dæmis einstæðir foreldri og börnin þeirra. Það er eldra fólk, fólk sem er með sína kennitölu, það er miklu erfiðara fyrir þá aðila að fá vinnu. Það er ekki af því að fólk reynir ekki, það reynir og reynir og því er ekki einu sinni svarað þegar það hefur verið í atvinnuleit.

Það sem ég óttast, ef ég má tala fullkomlega heiðarlega hér, er að fólk muni flytjast frá þessu úrræði. Í úrræðinu eru einmitt svo mörg verkfæri til að hjálpar fólki í virkni. Þegar maður er á félagsbótum hjá sveitarfélagi þarf maður að vera áfram í atvinnuleit í gegnum Vinnumálastofnun. Maður er þannig áfram í einhverju neti. Ég óttast að margir muni flytjast yfir á örorku af því að þeir verða þunglyndir og fá aðra króníska sjúkdóma af því að það er engin von þegar fólk er þvingað inn í úrræði sem er þeim ofviða, eins og til að taka vinnu, t.d. vaktavinnu, sem fólk hefur hvorki líkamlega né andlega getu til að vera í. Hafa verið gerðar rannsóknir á því til dæmis hversu lengi fólk er í þessum þvinguðu atvinnuúrræðum?

Mér hugnast ekki þessi leið og (Forseti hringir.) ég vona að við berum gæfu til að hætta við þetta.