144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég þakka fyrir þær samræður sem við höfum átt um þetta mál í þingsal. Ég mun fylgjast mjög náið með málinu og gera það sem ég get til þess að það nái ekki fram að ganga og ég treysti því að hv. þingmaður muni gera hið sama sem og þeir þingmenn sem látið hafa hvað mest að sér kveða í málinu.

Þetta er einmitt mál þar sem fólk sem skrifar lögin virðist ekki skilja hversu afdrifaríkar afleiðingar einn bókstafur getur haft fyrir líf hvers og eins sem lögin ná yfir. Hér er um að ræða frekar sértækan hóp fólks. Hvað getum við gert til þess að hjálpa þeim einstaklingum sem mest þurfa á því að halda? Hvort er vænlegra til árangurs, ef ég sem móðir spyr aðra móður, að hóta barninu sínu eða hvetja það? Hvort skilar betri árangri?