144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál hefur lúrað við sjóndeildarhringinn um allnokkurt skeið og ég hef kviðið því mjög enda boðar það hægri stefnu helvítis. Ég held reyndar að margir sem aðhyllast þessa hugmyndafræði geri sér ekki grein fyrir því hvaða grundvallarbreytingar þetta hefur í för með sér. Ég held að það sé ekki af því að fólk sé vont. Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að það sé auðvelt að tala fyrir því að fólk sýni ábyrgð, að fólk sé viljugt til þess að leysa úr vanda sínum og slíkt. Ég held að þetta mál sé á engan hátt fallið til þess heldur þvert á móti.

Það var mikið atvinnuleysi á Íslandi í upphafi 10. áratugarins. Þá voru félagshyggjuöflin komin til valda í Reykjavík. Þau unnu í samræmi við hin nýju lög um félagsþjónustu frá 1991 og sýndu mikinn metnað. Þeir sem lentu á fjárhagsaðstoð og voru í vandræðum með að komast inn á vinnumarkað, höfðu dottið út úr skóla af ýmsum ástæðum og gátu ekki séð sér farborða, fengu mjög mikla þjónustu. Það var ekki eins og fólk væri látið afskiptalaust. Því var boðin þjónusta. Það var má segja djöflast í því. Það var allt gert til þess að fá fólk til að efla sjálfsmynd sína og finna hjá sér kjarkinn til að taka framfaraskref í lífinu. Aldrei hefði komið til greina að beita hótunum af þessu tagi.

Ég vil spyrja hv. þingmann af hverju hún telji þessa stefnu fram komna. Hvað er það í okkar samfélagi sem kallar á nákvæmlega þessa stefnu? Hvar er meinið sem við þurfum að vinna bug á?