144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir hvert orð hv. þingmanns. Mig langar raunar að bæta því við að ég vil trúa því í lengstu lög að það sé sú taug í framsóknarmönnum hér, ég segi ekki upp til hópa, en meðal margra þeirra sem skipa 19 manna þingsveit þess flokks sem sjá að þetta gengur ekki. Það gengur ekki að tala fyrir félagshyggju og jöfnuði og samfélagslegum lausnum, að flagga skýrslu og niðurstöðu velferðarvaktarinnar sem snýst um það að berjast gegn fátækt, hvar sem hún birtist, í einu orðinu og koma svo fram með þetta frumvarp í hinu orðinu. Það gengur ekki saman.

Ef menn ætla hins vegar að stíga þetta skref til fulls vil ég skora á ríkisstjórnarflokkana að stíga þá skrefið til fulls og breyta markmiðsgrein laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, þar sem segir að markmið félagsþjónustunnar sé „að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar“. Sú breyting sem hér er lögð til er ekki í samræmi við markmið laganna. Það þurfa menn að horfast í augu við. Þeir þurfa að stíga skrefið til fulls og þeir þurfa að skilyrða markmiðsgrein laganna um félagsþjónustu.