144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru kannski ekki alltaf stóru málin, eða það sem mönnum finnast stór mál, sem segja mest eða eru táknrænust fyrir það hvert menn eru að halda. Ég var að hugsa um það hér undir umræðum áðan, þegar talað var um skúringakonurnar sem sagt var upp í Stjórnarráðinu, fjármálaráðuneytinu og fleiri ráðuneytum hér fyrir jólin, að ég sá í fréttunum í morgun að nú er verið að endurráða skúringakonurnar í gríska fjármálaráðuneytinu. Það er svolítið önnur stefna hjá ríkisstjórn Íslands og ríkisstjórn Grikklands í dag. Ætli við getum ekki sagt að öðrum megin sé ríkisstjórn ríka fólksins og hinum megin almennings eða fólksins.

Reyndar held ég að þetta sé ekki nógu góð nafngift, þetta er ekki ríkisstjórn ríka fólksins í almennum skilningi þess orðs, menn geta jú verið ríkir af ýmsu fleiru en peningum, og kannski er hið eiginlega ríkidæmi fólgið í öðru, góðri heilsu, barnaláni eða öðru slíku. Þetta er eiginleg ríkisstjórn ofurríka fólksins eða ríkisstjórn auðmanna, þeirra sem eiga efnahagslegan auð, því að þegar maður horfir á verk hennar þá er það sú stétt sem hún hefur hlaðið mest undir af öllum. Það eru þeir sem eiga gríðarlegar fjármunaeignir, greiddu auðlegðarskatt, sem hefur nú verið felldur niður. Þetta eru 3.000–4.000 ríkustu fjölskyldurnar í landinu. Þetta er auðvitað sláandi þegar við fáum þessar tölur núna um hinn gríðarlega efnamun sem hér er í landinu.

Ég vildi spyrja hv. þingmann því að hún vísaði til reynslu sinnar sem sveitarstjóra og að hafa rekið sveitarfélag. Reyndar hafa margir höfðað til kennaramenntunar sinnar og þá er rétt að upplýsa að sá sem hér talar getur að nafni til talist til þess hóps, hafandi pungapróf í kennslu- og uppeldisfræðum. En er ekki einhver leið að sjá það fyrir sér að ríki og sveitarfélög komi að þessu máli sameiginlega og horfi á þetta heildstætt, atvinnuleysistryggingakerfið og félagslega aðstoð? Ég er að vísa til þess sem við höfum horft upp á núna, að ríkið styttir einhliða atvinnuleysisbótatímabilið, sveitarfélögin þyngja kröfu sína um að þau megi skerða fjárhagsaðstoðina (Forseti hringir.) af ótta við það sjálfsagt að útgjöldin færist yfir á þau.