144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara taka undir þetta með hv. þingmanni, þær eru vel þekktar, þær erfiðu aukaverkanir sem fylgja langtímaatvinnuleysi. Það er eitthvað sem gerist innra með fólki og það þarf að aðstoða fólk við að komast út úr sinni stöðu. Það verður ekki gert með hótunum eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það þyrfti að breyta þessu kerfi, hafa aðdraganda og hafa fleiri þrep í ferlinu.

Virðulegur forseti. Ég er hrædd um að ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar sem hér ræður um þessar mundir skilji ekki mikilvægi þess að fara varlega og hvetja og halda utan um fólk þegar það hefur verið lengi atvinnulaust. Mér sýnist það á öllum þeirra verkum að þau hafi ekki þann skilning. Varla getur það verið svo að þau fari út í þessar aðgerðir einungis til að spara peninga, annars vegar stytta bótatímabilið til að spara ríkinu milljarð og hins vegar að lögfesta skerðingar í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til að spara sveitarfélögum aura. Það getur varla verið.

Ég held að þetta sé bara af því að þau skilja ekki stöðuna og séu svona ákveðin í því að brauðmolakenningin haldi, þó að búið sé að sýna það úti um allan heim að svo er ekki.