144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski athyglisvert í þessu sambandi að horfa á skýrslu hagfræðinga OECD sem tala um hversu mikilvægur jöfnuður sé og hversu mikilvægt það sé að styrkja heilbrigðiskerfið þannig að allir hafi aðgang að því óháð efnahag og það sama gildi um menntakerfið. Og um leið og munurinn á milli þeirra fátækustu og ríkustu verður mikill komi upp ósætti í samfélaginu og aðstæður sem eru skaðlegar, hreinlega skaðlegar. Það er meira að segja talað um að aðstæður sem ójöfnuður getur skapað í samfélögum valdi veikindum, líkamlegum veikindum, fyrir utan þau andlegu og þá reiði sem hefur eyðandi áhrif og slæmar afleiðingar á samfélagið. Við eigum því að gera allt sem við getum til þess að auka jöfnuð og við í stjórnarandstöðunni verðum að beita okkur gegn þeirri ríku hægri stefnu sem hér endurspeglast í hverju málinu á fætur öðru frá hæstv. ríkisstjórn. Því fyrr sem þessu linnir, því fyrr sem ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðismanna fer frá, því betra. Við höfum margra ára reynslu af stjórnarsamstarfi sem þessu en aldrei hefur samsetningin verið verri (Forseti hringir.) en einmitt núna.