144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég hafði því miður ekki tök á að vera hérna í gær þegar umræðan hófst um þetta mál, eða gat það ekki og þykir það leitt. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa rætt málið hérna í dag fyrir ræður þeirra.

Maður lærir með árunum. Ég var í bæjarstjórn Grindavíkur. Þar var einmitt verið að ræða þessi mál dálítið mikið. Ég velti því fyrir mér hvers vegna sé verið að setja þessi lög, hvers vegna sé verið að setja þessar skilyrðingar inn, hver ástæðan sé á bak við það. Þetta er ekkert nýtt, ég held þetta hafi ekki verið að koma núna inn. Þetta er búið að vera í umræðunni lengi. Maður sér að hvatinn fyrir því að setja svona lög er að það er verið að misnota kerfið. Það eru ótrúlega margir sem misnota þetta kerfi.

Það er til dæmis fullt af fólki sem býr saman en er ekki skráð í sambúð til þess að geta fengið peninga frá félagsaðstoð í viðkomandi bæjarfélagi. Þá fer maður að velta fyrir sér hvers vegna það sé. Það er kannski vegna þess að á okkar góða landi, sem við mærum í ræðum sem eitt af bestu löndum í heimi, er láglaunastefna og lág laun.

Í kjölfar hrunsins jókst atvinnuleysi gríðarlega, sem kostaði það að fólk fór á atvinnuleysisbætur. Ástandið var ekki síst skelfilegt á mínu heimasvæði í Reykjanesbæ og annars staðar. Þá fer maður að velta fyrir sér af hverju við erum alltaf að lenda í þeim aðstæðum að fá yfir okkur eitthvað svona sem við erum ekki tilbúin að takast á við. Samfélagið er ekki tilbúið að takast á við slík áföll, eins og umræðan núna um aldraða sýnir, hvað þeim fjölgar mikið og þar fram eftir götunum.

Mér finnst þetta líka snúast um það, eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna, hvers konar samfélag við viljum byggja upp á Íslandi. Á hvaða leið er samfélagið á Íslandi? Það finnst mér ótrúlega stór og mikil spurning. Hvernig samfélag viljum við byggja upp hérna?

Ég hef sagt frá því áður í ræðum mínum að börnin mín hafa stundað nám í Bandaríkjunum. Ég farið þangað tvisvar í heimsókn. Þar hefur ríkt gríðarleg markaðshyggja og hægri stefna áratugum saman, t.d. í Kaliforníu. Við verðum einhvern veginn að finna lausnir á því hvernig við getum fengið fólk út á vinnumarkaðinn sem er fullkomlega frískt. Það gerum við með því að grípa það strax. Ef við förum þá leið að skilyrða fjárhagsaðstoð gagnvart því fólki sem verst stendur í samfélaginu þá held ég að við fáum samfélag eins og á Hollywood Boulevard í Los Angeles þar sem er ekki hægt að þverfóta fyrir fátæku fólki sem á ekki í nein hús að venda, er alls staðar úthýst. Það mun gerast hér ef þetta heldur svona áfram. Viljum við Íslendingar, 330 þúsund manneskjur, búa í þannig samfélagi sem er svo ríkt af auðlindum, svo ég segi það nú einu sinni enn hérna, hæstv. forseti, í ræðustól? Hér á ekki að ríkja fátækt. Samt kom nýlega í ljós að yfir sex þúsund manns búa við sára fátækt í þessu landi. Hvers konar vitnisburður er það um okkur, stjórnkerfið og annað? Það hefur líka komið fram að á sama tíma og er verið að gera þetta er verið að létta byrðum af þeim sem eiga peningana í landinu svo nemur milljörðum.

Ég verð að segja eina sögu frá því þegar ég var í bæjarstjórn í Grindavík. Þá voru fimm ungmenni á fjárhagsaðstoð hjá bænum. Þau voru ófáanleg til að gera nokkurn skapaðan hlut í sínum málum. Við komumst að samkomulagi um það, vinnustaðurinn sem ég var að vinna á og félagsmálaráðgjafinn, að gera eitthvað drastískt til þess að athuga hvort við gætum hjálpað þeim eitthvað meira. Þá var ákveðið að segja við þau að það yrði hugsanlega að skerða hjá þeim bæturnar ef þau mundu ekki taka vinnunni. Þetta óyndisúrræði fékk þau til þess að segja já og koma. Ég tók að mér tvo unglinga, 18 og 19 ára, í vinnunni minni. Þegar ég spurði þau fyrst hvernig þeim liði, hvernig þau hefðu það, þá var svar drengsins sem var eldri: Mér líður eins og súrri mjólk. Þau voru bæði gersamlega brotin, höfðu enga sjálfsvirðingu, sjálfsálit eða sjálfstraust, búandi við skelfilegar félagslegar aðstæður. Í dag, þremur árum seinna, eru þau bæði búin að ljúka tveggja ára námi og eru úti á vinnumarkaði. Síðast fyrir viku hitti ég stúlkuna sem var 18 ára og hún faðmaði mig og þakkaði mér fyrir það sem ég hafði gert fyrir hana. Við gáfum henni líf. Við gáfum þeim báðum líf með þessu. Það var kannski vegna þess að þeim var hótað, eins ömurlegt og það er.

Við verðum að finna leiðir til að leysa þessi vandamál. Við erum aðilar að sáttmálum eins og mannréttindasáttmálanum og í 76. stjórnarskrárinnar er svo skýrt að við megum ekki brjóta á þessu fólki. Samfélag okkar snýst um það að öllum sé tryggður réttur til lífs sama hversu erfitt það er.

Ég hef oft sagt það líka hér í ræðustól að við eigum að miða öll okkar lög og allar okkar reglur, breytingar, frumvörp og annað að því að bæta hag þeirra sem verst standa. Þeir sem þiggja fjárhagslega og félagslega aðstoð hjá sveitarfélögum eru þeir sem standa verst í samfélaginu.

Ég get líka sagt að ég tók að mér einn lítinn dreng fyrir einstæða móður sem þiggur aðstoð hjá bæjarfélaginu mínu. Bara það að taka þennan dreng að mér gjörbreytti lífi þessarar fjölskyldu, sjálfsvirðingu, sjálfstrausti, ánægju og hamingju.

Mér finnst vanta samlíðan og samtryggingu í íslenskt samfélag í dag. Hvernig viljum við lifa, tala um hvert annað, hugsa um hvert annað og styðja þá sem standa höllum fæti? Það er fullt af fólki á Íslandi sem stendur höllum fæti.

Ég var sjálfur verkamaður í 30 ár, vann í fiski, og ég ætla ekkert að segja ykkur hvað var erfitt að ná endum saman. Konan mín er leikskólakennari. Í dag er ég þingmaður með ágætislaun þótt sumum finnist þau ekki nógu há. Hún er leikskólastjóri og hefur það fínt. Við erum búin að koma ár okkar vel fyrir borð. En ég skil ekki hvernig fólk sem vinnur í fiski myrkranna á milli fer að því að lifa í dag. Núna til dæmis um áramótin hækkaði virðisaukaskattur á matvæli. Ég tala við þetta fólk á hverjum einasta degi, vini mína sem ég vann með myrkranna á milli um helgar, hvenær sem er, í löndun, við slægingu. Þetta fólk hefur ekki einu sinni efni á að taka sér sumarfrí. Það er kannski ástæðan fyrir því að við erum með fólk á fjárhagslegri aðstoð, lægstu launin er svo lág. Hvatinn er enginn fyrir suma að fara út á vinnumarkaðinn. Þá er betra að vera á atvinnuleysisbótum, sem er sorglegt.

Við megum aldrei setja nein lög sem niðurlægja fólk eða láta því líða þannig að það sé, ég segi það hreint út, aumingjar. Við megum aldrei setja svoleiðis reglur. Við hljótum að geta fundið einhverjar leiðir til þess að gera þetta betur. Ríkisstjórnin hefur talað um að heimilin séu drifkraftur samfélagsins og samfélagið samfélagsverkefni þar sem við verðum að hlúa að þeim sem minnst mega sín. Það að skerða atvinnuleysisbætur um hálft ár var til dæmis absúrd aðgerð, finnst mér, sem jók enn kostnaðinn hjá sveitarfélögunum. Af hverju eru sveitarfélögin að gera þetta? Þetta er gert í samvinnu við þau, það er alveg pottþétt.

Það fær mig til að hugsa um það að sveitarfélögin í landinu og ríkisstjórnin og fleiri ættu að fara að skoða skattana og hvernig þeir eru. Það er mjög athyglisvert að skoða bækling á hverju hausti um skattana sem hver og einn borgar, þ.e. álagningarseðlana í hverju sveitarfélagi. Það er mjög athyglisverð lesning, hæstv. forseti, því að þar sér maður að fólk er ríkt, vellauðugt, rekur fyrirtæki, býr í flottum húsum, á flotta bíla og borgar ekki krónu til samfélagsins í tekjuskatt. Það fær fleiri hundruð þúsundir til baka frá skattinum og ríkinu í formi barnabóta og vaxtabóta. Þetta er stóri vandinn. Það borga ekki allir til samfélagsins eins og þeir eiga að gera.

Sveitarfélögin eiga að standa með þeim sem standa höllum fæti. Við eigum alltaf að vera að hugsa um þá. Við eigum alltaf að vera tilbúin að standa á bak við þá. Grípa strax inn í þegar vandamál steðja að. Snemmtæk íhlutun. Það hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna að í ýmsum málum er gríðarlega mikilvægt að stíga strax inn í, hjálpa til, benda á það sem maður sér að er að. Sem kennari — það hefur komið fram við erum margir kennarar hérna — sér maður hverjir eiga við félagsleg vandamál að stríða og hverjir eiga í vanda, það sést bara. Það getur enginn falið það. Þetta fólk lendir líka mjög oft í því að verða út undan, lendir í einelti.

Hvað varðar þetta frumvarp þá vona ég að gerð verði á því breyting. Í mörgum ræðum mínum hér, þær eru engar tímamótaræður en ég hef hvatt til þess nánast í hverri einustu ræðu að ríkisstjórnin auki samráð við alla í samfélaginu um langtímamarkmið. Hvernig viljum við byggja upp þetta samfélag? Það hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna að þetta sé svolítið ríkisstjórn auðmanna og ríkra í samfélaginu. Það er einhvern veginn þannig. Þó að mér sé óljúft að segja þá er það bara svoleiðis. Mér þykir það mjög leitt. Menn slá sér á brjóst og tala um að hér sé allt á réttri leið og smjör drjúpi af hverju strái. Það er ekki þannig. Fullt af fólki í samfélaginu á mjög erfitt, gríðarlega erfitt. Við ættum frekar að vera að tala um frumvarp sem miðaði að því að hjálpa því betur en ekki skerða fjárhagsaðstoð við það.

Ég held að þetta sé byggt út frá reynslu sveitarfélaga. Það eru ofboðslega margir sem hafa misnotað þetta. Maður þekkir það sjálfur. Það er til fólk sem neitar að leita úrræða sinna mála. Þetta er svo ofboðslega margbreytilegt, flókið og erfitt vegna þess að það vill þetta enginn. Innst inni vill enginn vera á framfæri sveitarfélagsins síns eða það sem áður var kallað hreppsómagi eins ömurlegt orð og það er. Sveitarfélögin voru held ég upphaflega stofnuð til þess að halda utan um fólk sem átti erfitt. Þetta hefur verið viðvarandi á Íslandi alla tíð, okkur til ævarandi skammar.

Ég held að á næstunni muni verða mjög erfið kjarabarátta. Maður finnur það á fólki að það er algjörlega búið að fá nóg. Það er hluti af þessu líka. Þetta er allt samhangandi, þessi verkefni.

Fyrst þegar við vorum að ræða þetta þegar ég var í sveitarstjórn þá var ég nokkuð sammála þessu — skerðum bara fjárhagsaðstoð við þetta lið, þrælum því út úr húsum. En við getum ekki gert það, allra síst þegar við erum með stjórnarskrá sem bannar það og erum aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem hver hefur rétt til lífs. Við eigum að vernda þá sem illa standa í lífinu og gera allt til þess. Það er alltaf verið að tala um kostnað og kostnað. Hvaða áhrif hefur það á einhvern ef við erum að tala um að lækka kostnaðinn í samfélaginu, koma viðkomandi út úr húsi eða út á götu eða hvað sem er? Hvað verður um þetta fólk? Það hefur komið í ljós, eins og í Hafnarfirði, að það er ekkert haldið utan um það hvað verður um fólk sem dettur út úr kerfinu. Það er háalvarlegt mál. Það verða að vera úrræði.

Mér finnst að í samfélagi eins og Íslandi eigum við ekki að þurfa að vera að ræða svona mál. Því miður erum við að gera það. Það er vitnisburður um það hvernig hér hefur verið stjórnað á síðustu áratugum og alla tíð. Það er nýbúið að fella út úr lögum orðið fáviti, það var til umræðu hér um daginn, og krypplingur o.fl., lögum frá 1827.

Ég trúi því að þegar hv. formaður velferðarnefndar, ef ég þekki hana rétt, fær þetta mál í hendur þá verði þetta ekki samþykkt svona heldur reynum við að finna þann flöt að gera þetta eins vel og á eins manneskjulegan hátt og hægt er og bjóða miklu meiri aðstoð strax þegar fólk er að detta út af atvinnuleysisskrá og högum málinu þannig að enginn missi reisn. Það mikilvægasta fyrir hver mann er að halda reisn.