144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Ég verð að segja að mér finnst hér vera farið svo rangt að. Hér er í rauninni verið að setja hinar sameiginlegu refsingar, þ.e. hvernig við ætlum að skilyrða fjárhagsaðstoðina við fólk, meðan við hefðum átt að byrja á hinum endanum, að setja rammann um það hvernig við ætlum frekar að lyfta fólki upp.

Mér fannst áhugavert líka að heyra dæmið sem hv. þingmaður tók í ræðu sinni um að svona skilyrðing hefði virkað. Ég er bara glöð að heyra að það tókst að koma þessum ungmennum í virkni og vil einmitt taka undir orð hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hvort það hafi mögulega ekki verið út af hótuninni heldur vegna þess að það tók einhver við þeim sem vildi virkilega hjálpa þeim. Út frá því langar mig að velta upp við hv. þingmann og heyra álit hans: Hvað ef þetta hefði ekki virkað? Nú munu þessar breytingar mögulega ná til mun stærri hóps en bara tveggja ungmenna. Hvaða félagslegu aðstæður, hvaða samfélagslegu aðstæður erum við að búa til ef við förum að ýta fólki enn lengra út á jaðarinn þar sem það hefur svo lága upphæð sér til framfærslu að hún dugar auðvitað engan veginn, enda væri það eitthvað í kringum 70 þús. kr.? Deilir hv. þingmaður þeirri hræðslu (Forseti hringir.) sem ég hef af því hvers konar jaðarhóp í samfélaginu við gætum verið að búa til með því?