144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég deili þeim áhyggjum hv. þingmanns, algjörlega. Ég kom inn á það í ræðu minni og tók dæmi um það þegar ég var erlendis um daginn þar sem ég sá einmitt hvernig samfélag getur orðið þegar aðstæður eru þessar, þar sem ekki er hægt að labba eftir stórri götu öðruvísi en að rekast á fólk sem er bæði fatlað og þroskaskert, geðveikt og bara fátækt af því að það hefur í engin hús að venda og kerfið hefur lokað á það. Ég vil ekki svoleiðis samfélag á Íslandi, alls ekki. Þegar hv. þingmaður talar um skilyrðingu þá var það þannig, svo ég segi nú söguna algjörlega frá upphafi þá var það konan mín sem hafði orð á því fyrst að við gætum reynt að hjálpa þessum einstaklingum og umræðan leiddi það af sér að það væri kannski hægt að gera það, ýta undir það með því að setja einhver skilyrði, en það var aldrei gert. Aldrei. Ég veit að einn einstaklingur þáði þetta ekki og varð ekki fyrir skerðingum.

Ég kom inn á kærleikann og umhyggjuna í ræðu minni og ég held að ef við hefðum bara farið heim til þessara ungmenna og fengið að spjalla við þau smástund og látið þau vita að okkur væri ekki sama um þau og við meintum það sem við værum að segja, að við vildum hjálpa þeim, þá hefði það haft alveg nákvæmlega sömu áhrif. En það er þannig, eins og ég hef margoft sagt, ég þreytist ekki á að tala um það, að við tölum allt of lítið um umhyggju og kærleik í samfélaginu, sem er það sem gott samfélag snýst um. Við getum verið ósammála um allan fjandann, afsakið orðbragðið, en við eigum að standa saman, styrkja hvert annað. Það er bara þannig í samfélagi eins og okkar að hér er fólk sem á mjög erfitt, við búum við láglaunastefnu, hv. þingmaður talaði um hreppsómaga, ég man eftir þeim líka í minni heimabyggð, yndislegt fólk sem átti erfitt. Fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um samlíðunina sem þarf að auka í samfélagi okkar, hæstv. forseti.