144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem er hér í dag um vinnumarkaðinn og laun. Við tölum aldrei of oft um launin í landinu, allra síst lægstu launin sem hafa verið þjóðarósómi allt of lengi. Þó að hæstv. fjármálaráðherra vonist til þess að við séum ekki að hvetja til uppþota þurfum við ekkert að gera það. Ef maður er alveg í jarðsambandi og í takt við fólkið í landinu skynjar maður að nú eru allir búnir að fá nóg. Ég ræddi við verkalýðsforingja í síðustu viku sem fékk þau skilaboð á sínum fundi, hann ætlaði nú að vera hógvær og biðja um 300 þús. kr. lágmarkslaun, en þá var bara barið í borðið: Nei, það er sko ekki í boði í dag.

Það er ekkert okkar að hvetja til óeirða á vinnumarkaði. Við þurfum þess ekkert. Þegar verið er að tala um að hún sé komin þessi sama mantra frá Samtökum atvinnulífsins að nú megi ekki ógna stöðugleikanum í samfélaginu og ekki hækka lægstu laun meira en 3–3,5%. Á sama tíma á síðasta ári þegar laun voru hækkuð um 2,8% vegna þess að það mátti ekki ógna stöðugleikanum í samfélaginu, það mundi kalla á meiri verðbólgu og allt færi á hvolf. Síðan í kjölfarið kom fullt af sérsamböndum og aðrir sem fengu mun meiri hækkanir svo að ég tali ekki líka um það hvernig millistjórnendur í fyrirtækjum og forstjórar í fyrirtækjum hafa gígantísk laun. En verðbólgan er í sögulegu lágmarki, það hafði engin áhrif á verðbólgu. En nú þegar þeir sem verst standa í samfélaginu, vinna skítugustu störfin og erfiðustu störfin og halda uppi þjóðfélaginu í raun biðja um sanngjarna launahækkun þá er barið í borðið og sagt: Nei. Þá ógnum við stöðugleikanum.

Ég las mjög góða og fræðandi grein í Kvennablaðinu í gær, vegna þess að ég hef hvatt mikið til sátta í þessu samfélagi, þar sem ríkisstjórnin leitar sátta við alla í samfélaginu um langtímamarkmið, til að auka stöðugleika og frið í samfélaginu. Það hefur ekkert verið hlustað á það en þar skrifaði maður grein sem sagði að við gætum troðið þessari þjóðarsátt upp í púströrið á Range Rovernum okkar. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að lesa þessa grein.