144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vitlaust gefið í því sem við getum kallað efnahagsspilið í þessu landi. Það þarf að stokka spilin og það þarf að gefa upp á nýtt. Það gengur ekki eina ferðina enn að þegar samningar eru lausir á almennum markaði komi helstu stofnanir landsins, ríkisstjórnin, atvinnurekendur og Seðlabankinn og varpi ábyrgðinni á efnahagsstöðugleika á hendur þeim sem lægst hafa launin. Það gengur ekki lengur. Auðvitað ætti það helst að vera þannig að á almennum launamarkaði semji atvinnurekendur við launþegana en nú er það svo að ríkisstjórnin sem ríkir núna hefur leitt svo í ljós þá misskiptingu sem hér er að alla svíður í augun undan því. Við fáum fréttir af því að 1% þjóðarinnar á 25% af öllu, 10% eiga helminginn af öllum eigum í þessu landi. Helmingur þjóðarinnar á minna en 750 þúsund. Fyrirtækin verða að taka á sig þá ábyrgð að hækka laun þeirra lægstu og við öll hin verðum að hlíta því og heimta — fyrirgefið að ég orða það þannig, við sem höfum hærri laun þurfum nú að sitja á okkur og láta þetta gerast.

Þeir sem stjórna fyrirtækjunum verða líka núna að elta ekki, eins og þeir gerðu síðast. Og þeir gerðu meira, á meðan almenni launþeginn fékk 2,8% hækkuðu stjórnendurnir launin við sig um 13%. Þetta er beinlínis (Forseti hringir.) dónaskapur við fólkið í landinu.