144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[14:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem mér finnst mjög þörf. Þegar kjarasamningar standa fyrir dyrum treystir maður á að skynsemi og ábyrgð aðila verði til þess að varðveita þann góða árangur sem hér hefur náðst undanfarið, að varðveita kaupmáttaraukinguna og halda í þann jöfnuð sem hér hefur skapast vegna þess að á Íslandi er, eins og kom vel fram í erindi Ásmundar Stefánssonar á ársþingi ASÍ í haust, meiri jöfnuður en víða annars staðar. Það er þörf á því að meiri jöfnuður sé á Íslandi en annars staðar vegna þess að hér er fámennt land, við erum í návígi hvert við annað og það er þörf á enn meiri jöfnuði.

Þær hugmyndir hafa komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að skynsamlegt gæti verið að beita að þessu sinni krónutöluhækkunum en ekki prósentuhækkunum þannig að þeir sem eru með minni og meðaltekjur beri þá meira úr býtum en aðrir. Stjórnvöld hafa síðan komið til móts við almenning í landinu með ýmsum hætti, með skuldaleiðréttingu til þorra heimila, með því að nú eru í undirbúningi hjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra samræmdar aðgerðir fyrir húsnæðisþarfir margra hópa.

Það er hins vegar eitt sem aðilar vinnumarkaðarins bera sameiginlega ábyrgð á, þeir hafa innleitt hálaunastefnu í fyrirtækjum sem eru í eigu lífeyrissjóðanna. Þar bera þeir jafn mikla ábyrgð, bæði á ofurlaunum stjórnenda, þ.e. forstjóra og millistjórnenda, sem hafa virkilega hækkað eins og hefur komið fram. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt í þessum kjarasamningum að aðilar vinnumarkaðarins vindi ofan af þessu við kjarasamningagerð vegna þess að sá ójöfnuður (Forseti hringir.) sem þeir hafa sjálfir skapað er orsök undirliggjandi óánægju í þjóðfélaginu mjög víða.