144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[14:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er einsýnt að þessar umræður munu ekki breyta neinu, því miður. Ég verð að segja að mér finnst skringilegt þegar þingmenn meiri hlutans koma í pontu og segja að maður fagni ekki því sem vel hefur tekist til með. Það er rangt. Auðvitað gleðst maður yfir því að atvinnuleysi hefur minnkað, að sjálfsögðu. Það finnst mér kannski skringilegast við þennan málflutning þegar verið er að tala um þá staðreynd að það eru óróleikatímar. Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref. Og við könnumst öll við að hér erum við í nákvæmlega sömu umræðum og hafa átt sér stað aftur og aftur, eins og ég sagði áðan. Það sem mér finnst einna skringilegast við orðræðu þingmanna meiri hlutans, kannski sér í lagi hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, er að hv. þingmaður virðist einhvern veginn alltaf gleyma þegar hann fjallar um síðasta kjörtímabil, ég var nota bene ekki hluti af þeim meiri hluta, að það varð hrun og að ríkisstjórnin var í prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá var farið fram á niðurskurðaraðgerðir. Ég er alveg sannfærð um að þótt önnur ríkisstjórn hefði verið við völd hefði þurft að fara í nákvæmlega sömu aðgerðir.

Ég er þó sammála þingmanninum um að það var of skarpt skorið í heilbrigðiskerfinu en við vorum hér á tímum sem við höfðum aldrei áður þurft að glíma við. Við vorum hér í fullkomnu hruni. Núna líta hlutirnir aðeins betur út og þá finnst mér kominn tími til að þeir sem hafa það verst, þeir sem eru á lægstu laununum, fái að komast út úr sinni fátæktarholu.