144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða og ég get tekið undir með þeim sem segja mikilvægt að viðhalda stöðugleikanum. Það er rauði þráðurinn í skilaboðum mínum hér í dag að við eigum gríðarlega mikið undir því að viðhalda lágri verðbólgu og leggja þannig grunn að vexti kaupmáttar í framtíðinni.

Hér finnst mér sumir hafa talað eins og að það sé sjálfstætt, sérstakt og jafnvel séríslenskt vandamál hvað það er mikill ójöfnuður í landinu. Staðan er engu að síður sú að á nánast alla mælikvarða er jöfnuður á Íslandi með því mesta sem gerist. Með leyfi forseta:

„Öfugt við það sem mjög stór hluti af vinstri sinnuðu fólki á Íslandi heldur fram, þá er jöfnuður mikill á Íslandi á alþjóðlegan mælikvarða.“

Þetta var Ásmundur Stefánsson fyrir nokkrum mánuðum. (Gripið fram í.) Í þessari umræðu er gefið í skyn að þetta sé einhvern veginn allt öðruvísi. Það er líka gefið í skyn að það sé hægt að fara í mjög miklar nafnlaunahækkanir, sérstaklega hjá hinum tekjulægri, án þess að það hafi nein áhrif á verðbólgu eða launaþróun annarra hópa. Þetta er jafnvel sama fólkið og kemur hér upp í dag og segir: Við hin þurfum að gefa eftir. Þeir sem eru með millilaun þurfa að gefa eftir. Þeir sem eru með hærri laun mega ekki fá neitt vegna þess að við ætlum eingöngu að leggja áherslu á hækkun launa hinna lægstlaunuðu.

Þetta er sama fólkið og kallaði mig fyrir nokkrum vikum síðan upp í pontu dag eftir dag til að ná samningum við lækna sem fóru fram á 50% launahækkun. Þetta er sama fólkið. Eruð þið búin að finna upp einhverja galdraformúlu sem leiðir til þess að þeir einir sem er á lægri laununum fái kjarabætur og hinir sitji eftir?

Ég ætla einfaldlega að eftirláta það aðilum vinnumarkaðarins að finna lausn á því hvernig gengið verður frá kjarasamningum að þessu sinni, en þau skilaboð hljóta að fylgja héðan úr þingsal að menn skuli hafa í huga að gangi menn of hart fram segir sagan okkur hvar það endar, miklar nafnlaunahækkanir hafa tilhneigingu til að enda í verðbólgu (Forseti hringir.) líkt og Seðlabankinn benti á núna síðast. Og hvað gerist þá? Þá þurfum við að fara eina byltu enn. Úr því kemur engin kaupmáttaraukning.

Ég er ekki hingað mættur í dag til að verja viðvarandi lág laun hjá ákveðnum (Forseti hringir.) tekjuhópum. Ég er bara að benda á að forsenda þess að við getum gert betur fyrir alla er að við höldum áfram að skapa verðmæti í landinu.