144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Innan þess ramma sem gildir núna fyrir árið 2014 er verkefnisstjórnin að fara yfir hvað hún telur vera hægt að gera varðandi fjölgun samninga. Samningarnir hafa líka verið misjafnlega stórir þannig að það gæti verið að einn samningur tæki allt það aukafjármagn sem hefur komið inn núna fyrir árið 2015, en það getur líka verið að verkefnisstjórnin telji betra að fara kannski í fleiri samninga þannig að það séu fleiri sem mundu njóta þjónustunnar. Ég treysti á að verkefnisstjórnin muni vinna áfram jafn faglega og vel og hún hefur gert.

Ég vil líka benda á að kostnaðarskiptingin er þannig að það er um 20% framlag frá ríkinu og 80% sem sveitarfélögin borga fyrir þessa þjónustu. Það er þannig séð ekkert sem kemur í veg fyrir að sveitarfélögin geti boðið fleirum upp á þjónustuna, en hins vegar hef ég fengið margítrekaðar ábendingar og ég veit að fjárlaganefnd Alþingis fékk minnisblað um það líka að það eru (Forseti hringir.) mjög margir þættir sem snúa að þjónustu við fatlað fólk sem sveitarfélögin telja að þau þurfi (Forseti hringir.) meira fjármagn til að geta sinnt.