144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og ágætisyfirlit yfir þær breytingar sem hér er verið að leggja til á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum annars vegar og svo lögum um málefni fatlaðs fólks. Ég vil byrja á því að segja að mér líst vel á þá viðbót er varðar kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og ég held að það sé mjög til bóta og það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi að mínu mati þó svo að ég hafi orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með að verið sé að framlengja tilraunaverkefnið um NPA en ekki festa það í sessi. En gott og vel, það er þó alla vega verið að vinna málið áfram og ég held að á margan hátt sé verið að gera það mjög vel og faglega, þannig að það er gott, og ég bind miklar vonir við það að við aukum þekkingu okkar og getu til að veita þessa þjónustu vel inn í framtíðina.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem hún kom aðeins inn á, þ.e. að sveitarfélögin greiða 80% af kostnaðinum við notendastýrða persónulega aðstoð, en ríkissjóður greiðir 20%, hvort það hafi einhvern tíma komið til skoðunar að snúa þessu við, að ríkissjóður greiði meiri hlutann og sveitarfélögin minni hlutann við þessa aðstoð. Sveitarfélögin hafa ólík viðmið um það hverjir fá notendastýrða persónulega aðstoð. Sum sveitarfélög, ef ég þekki rétt, hafa frekar gert samninga en önnur. Það að valdið liggi hjá sveitarfélaginu, fjárveitingin sé hjá sveitarfélaginu, torveldar ýmislegt (Forseti hringir.) í lífi fatlaðs fólks, svo sem það að flytja sig á milli sveitarfélaga, þá þarf það (Forseti hringir.) að byrja frá grunni aftur og gera nýjan samning. Þess vegna vil ég spyrja hvort (Forseti hringir.) það hafi komið til skoðunar að breyta þessu hlutfalli.