144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Örstutt ræða um þetta mál. Ég ætla að fagna því að það er komið fram og taka undir meginatriðin í frumvarpinu. Þetta eru tveir kaflar. Annars vegar er verið að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þar er fjallað um eineltismálin, kynferðislega áreitni og fleiri atriði sem þarf að setja reglugerð um. Sú reglugerð liggur fyrir og hefur verið unnin en lagaheimildina hefur skort, þannig að að sjálfsögðu styðjum við að gengið verði frá því máli. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að reglugerðin fái að fylgja málinu til hv. velferðarnefndar til að hægt sé að skoða þetta í samhengi þegar farið er yfir málið.

Hinn hluti málsins er NPA-aðstoðin sem er notendastýrð persónuleg aðstoð. Verkefnið var sett af stað árið 2011, ef ég man rétt, með lögum frá 2010 og átti að vera til endurskoðunar árið 2014. Það náðist ekki og í sjálfu sér er enga athugasemd að gera við það þótt framlengja þurfi verkefnið eitthvað. Í 3. gr. er fjallað um einn þátt af því sem þarna kemur til, sem er vinnutíminn þess fólks sem veitir notendastýrða persónulega aðstoð, er ráðið af viðkomandi einstaklingum til að sinna verkefninu. Vikið er frá almennum reglum um hvíldartíma og annað slíkt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé öruggt að haft hafi verið samráð við stéttarfélögin. Ég geri mér grein fyrir því að þarna eiga sér stað samningar á milli viðkomandi notenda og síðan við stéttarfélögin, en það getur verið býsna erfitt fyrir alla þá sem þurfa sjálfir að standa í þessu vegna þess að það eru auðvitað ekki allir þaulþjálfaðir í starfsmannaumsjón. Mig langar því aðeins að fylgja því eftir sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi áðan og vitnaði hann í Guðjón Sigurðsson. Það er þetta með umgjörðina, hvernig staðið er að samningum og aðstoðin við að gera samninga um vinnu þeirra sem veita notendastýrða persónulega aðstoð. Það var umdeilt en varð niðurstaðan á þeim tíma þegar þetta fór af stað að NPA-miðstöðin tók að sér að vera brimbrjótur í byrjun, átti að gera tilraunir með það hvernig hægt væri að halda utan um þennan þátt. Það kom fram í umræðunni um þetta mál á sínum tíma að það skipti máli að einhvers konar félagslegt form væri á því sem gæti aðstoðað fólk við að búa til slíka samninga og halda jafnvel utan um starfsmannahald og slíkt. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi að kannski gætu sveitarfélögin gert það í sameiningu á einhvern hátt eða hluti notenda. En þarna er alla vega svolítið gap í málinu og er þetta eitt af því sem verður að þróa áfram í þessu tilraunaverkefni. Hvernig getum við búið þannig í haginn að fólk fái nægilega aðstoð, leiðbeiningar og geti þar með tryggt að starfsfólkið njóti allra eðlilegra réttinda í sambandi við notendastýrðu persónulegu aðstoðina? Ég bið ráðherra að upplýsa mig um það hvort stéttarfélögin hafi ekki verið með í ráðum varðandi orðalag á þessum kafla. Ég sé að sett er inn öryggisákvæði um að Vinnueftirlitið geti blandað sér í málið ef brotnar eru reglur um aðbúnað eða annað slíkt.

Það er ástæða til að nefna fyrst við erum að tala um að þessu tilraunaverkefni sé frestað um tvö ár, eða það framlengt má segja, að það þýðir um leið að tveggja ára bið verður þangað til settur verður lagarammi utan um þetta mál. Við sem höfum fylgst með málefnum fatlaðs fólks á undanförnum árum vitum að það var mikið gagnrýnt, og að mínu mati með réttu, þegar til stóð að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna. Það má segja að fullt af hlutum hafi verið settir í bið, þ.e. menn fóru að bíða eftir því að það kæmi að því að málaflokkurinn færi yfir og síðan ætluðu menn að sjá til hvernig það þróaðist. Ef við frestum því að leggja mat á hvernig til hefur tekist og fara yfir allt regluverkið og skoða, bæði peningalegu tilfærsluna og líka hvernig sveitarfélögunum hefur tekist að ná utan um málaflokkinn er hætta á að það myndist ný bið. Ég vek athygli á því hér vegna þess að þetta er málaflokkur sem þarf að þróast áfram. Notendastýrð persónulega aðstoð er ný en hún er þróunarverkefni, hún þarf að vera í góðu samstarfi notendanna og þeirra sem sjá um þjónustuna og auðvitað ráðuneytisins. Þessa þróunarvinnu á að nota til að búa til lagaramma fyrir þetta til lengri tíma.

Það sem mér finnst skipta miklu máli, og ég gat ekki betur heyrt en hæstv. ráðherra undirstrikaði það, það kemur alla vega fram í frumvarpinu, er að það er ákveðið að setja lagaramma í kringum þetta. Það er ekki þróunarverkefni hvort þetta eigi að vera form til einhvers tíma og svo hættum við kannski við, þannig skil ég það ekki. Ég deili því með hæstv. ráðherra, ég sé að hann nikkar hér. Við ætlum að setja lög. Það sem við erum að þróa og kanna er hvers eðlis lögin verða. Hver verður ramminn? Hver verður umgjörðin? Það er það sem skiptir mjög miklu máli, hvernig reynslan af þessu verður. Það liggur auðvitað á því og þarf að fá það fljótlega og það eru komnar skýrslur um fyrstu reynsluna varðandi yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Ég veit að hv. velferðarnefnd mun vonandi í mars eða apríl eiga fund með Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir þær skýrslur sem þar liggja fyrir. Það skiptir auðvitað miklu máli að menn átti sig á því í sameiningu hvernig umgjörðin er, þannig getum við lagt mat á reynsluna. Við getum náttúrlega komið með mjög sláandi dæmi í sambandi við þjónustu við fatlað fólk, sem er ferðaþjónustan á höfuðborgarsvæðinu. Það veitir ekki af að við í sameiningu, þingið og ráðuneytið, setjum um þetta umgjörð og komum með skilgreiningar á því hver lágmarksþjónustan á að vera og samræmum það á einhvern hátt svo að tryggt sé að sveitarfélög eða byggðasamlög sem standa á bak við málaflokkinn veiti fullnægjandi þjónustu. Það verða ekki teknar geðþóttaákvarðanir í því eða líkt og gerðist oft áður þegar sveitarfélögin voru með ýmsa málaflokka eins og í félagskerfinu, þá gátu menn nánast ýtt frá sér notendum með því að vera með mismunandi þjónustu. Ég er ekki að fullyrða að það sé gert hér, langt í frá, en ég held að það sé gríðarlega mikilvægt engu að síður að við fylgjum því eftir að þessi þjónusta sé veitt á öllum stöðum. Það tengist líka notendastýrði persónulegri aðstoð, því að eins og kom fram kom Reykjavíkurborg frekar seint inn í verkefnið, fór ekki af stað alveg strax, og ég veit ekki betur en einstök byggðasamlög hafi raunverulega ekki tekið hana upp enn þá. Það finnst mér vont því að þegar verið er að þróa svona verkefni finnst mér að þessir aðilar þurfi að koma inn og taka inn það fólk sem vill nota slíka þjónustu, vill fá að prófa hana, að það fái tækifæri til þess.

Ég var að lesa þetta í gær og það er eitt sem vakti athygli mína, sem er stundum það sem maður les fyrst í sambandi við svona mál vegna þess að það er gott yfirlit yfir það hverju er verið að breyta, en það er kostnaðarmatið frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg tölurnar sem þar eru. Það er talað um einhverjar inneignir sem eiga að koma á móti þeirri aukningu á kostnaði sem áætlaður er en síðan þurfi ríkið væntanlega með fjáraukalögum að bæta við 65 milljónum, ef ég skil það rétt, og síðan á næsta ári 80–90 milljónum. Það hefði verið gaman að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig þetta lítur út og hvort það er ekki alveg tryggt að þetta verði fjármagnað og líka hvort ekki sé alveg tryggt að það verði hægt að bæta aðeins inn í þetta, þ.e. taka inn fleiri notendur, að við séum ekki að frysta ástandið til næstu ára. Það er talað hér um 61 samning, þeir eru 51 á árinu 2014, þarna eru 10 í viðbót sem er jákvætt, það þarf að vera öruggt að hægt verði að bæta þetta mörgum einstaklingum við og tryggja þannig að þetta verkefni verði í þróun.

Ég hef stundum sagt í sambandi við málefni fatlaðra að það er þannig að sveitarfélögin, og það gildir um fleiri aðila eins og t.d. aldraða — ég hafði horft til þess á sínum tíma þegar notendastýrð persónuleg aðstoð fór af stað að þetta væri verkefni sem gæti orðið fyrirmynd verkefna varðandi þjónustu við aldraða þar sem væri einstaklingsmiðuð þjónusta og menn gætu mætt þörfum hvers og eins með svipuðum samningum og hér er verið að gera, og er vert að hafa það í huga þegar þetta er gert. En á sama tíma erum við að glíma við það hvernig menn leysa þjónustu við fatlað fólk, stofnanahugmyndir eru enn töluvert ríkjandi, þ.e. að auðveldast sé að koma þessum fólki saman á stofnun, auðveldast sé að þjónusta það þannig. Sú skoðun hefur auðvitað verið á undanhaldi en til að tryggja að hún verði ekki ofan á verðum við að setja pressu á að sveitarfélögin sinni verkefninu, sem er heimaþjónustan og þjónustan við einstaklinginn í nærumhverfi sínu og á heimili sínu, að tryggt sé að sveitarfélögin geti ekki komið sér hjá því eða leitað ódýrari lausna sem skerða sjálfræði og sjálfstæði viðkomandi einstaklings. Þetta mál snýst fyrst og fremst um mannréttindi, réttindi fólks í þessu samfélagi til að geta tekið þátt í því til jafns við aðra. Þar af leiðandi einskorðast þetta ekki við fatlað fólk, það geta verið alla vega ástæður fyrir því að menn þurfa aðstoð. Þá eigum við að veita aðstoðin til að fólk geti haldið reisn og lifað sjálfstætt í samfélaginu með sömu réttindi og aðrir.

Ég ætla ekki að hafa ræðuna lengri en fæ kannski að heyra hjá hæstv. ráðherra svör við þeim athugasemdum sem ég lagði fram.