144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna og vil raunar byrja á að taka undir þann skilning að hér sé um þróunarverkefni að ræða sem við ætlum ekki að fara að bakka út úr eða hætta við heldur sé tilgangur þróunarverkefnisins að geta búið til betri umgjörð um NPA-þjónustuna og það sé tilgangurinn með framlengingu þessa þróunarverkefnis.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í kostnaðinn og fá að heyra hans mat á því að nú hafa málefni fatlaðs fólks vissulega verið flutt yfir til sveitarfélaganna en sveitarfélögin á Íslandi eru mjög misstór og eru kannski mjög misjafnlega í stakk búin til að veita NPA-þjónustu.

Ég vildi heyra skoðun hv. þingmanns á því hvernig honum finnist þessi kostnaðarskipting, þ.e. að sveitarfélögin beri 80% af kostnaðinum en ríkið einungis 20% og það sé jöfnunarsjóður sem hafi umsýslu með því framlagi, hvernig honum hugnist sú hugmynd að ríkið komi þarna meira inn í, borgi stærri hluta en sveitarfélögin minni hluta og jafni þannig aðstöðumun fatlaðs fólks eftir því hvar á landinu sem það býr.