144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að halda aðeins áfram með fyrri umræðuna um sveitarfélögin þá er ég sjálfur mjög hlynntur því að sveitarfélögin hafi þetta verkefni. Eitt af því sem mér finnst skipta mjög miklu máli, þegar við erum að ræða um réttindastöðu fólks með fötlun, er að við þurfum að læra það í íslensku samfélagi að líta alla íbúa í sveitarfélaginu sömu augum, þ.e. hvað varðar réttindi, mannréttindi, og möguleikana á því að lifa sjálfstætt og njóta þjónustu, að það kalli ekki á að færa sig á milli landshluta nema í algerum undantekningartilfellum ef slíkt er.

Við erum ekki eins lík og menn eru oft að tala um, að það séu frávik frá þessu og hinu o.s.frv. Það þurfa allir á einhverri þjónustu að halda á einhverju augnabliki og með einhverjum hætti og það er sveitarfélaganna að veita hana. Þetta hefur líka verið hluti af því að geta samþætt þjónustu, eins og ég segi, til að vera ekki að draga menn í dilka eftir því hvað verið er að biðja um.

Varðandi fjölda samninga þá var það eitt af því sem tekist var á um þegar þetta var sett af stað sem tilraunaverkefni: Eiga allir að vera inni og eiga möguleika á samningi? Hvað með yngsta fólkið, hvað með þroskaskerta o.s.frv.? Niðurstaðan varð sú að hafa þetta eins opið og hægt væri og það var raunar alveg opið til að fá reynsluna af ólíkum samningum þannig að menn gætu áttað sig á þessu — tókst þetta, tókst það vel, hvernig hentar þetta viðkomandi o.s.frv.?

Það var ekkert sjálfgefið að lagt yrði af stað á þann hátt. Eins og ég kom að í ræðu minni áðan þá hefði ég viljað sjá fleiri samninga til að fá meiri reynslu og nota þá þann tíma, sem hér er verið lengja að verkefnið um, til að tryggja vandaðri lagasetningu þegar lögin verða sett að tveimur árum liðnum.