144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:33]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir að ég er ánægð að sjá þetta nýja ákvæði til bráðabirgða sem á að koma inn í lögin og um notendastýrða persónulega aðstoð og þær breytingar. Ég hlustaði á hv. þm. Guðbjart Hannesson þar sem hann talaði um að tryggja þátt sveitarfélaga, að sveitarfélögin gætu ekki komist hjá því að sinna þjónustu við fatlað fólk og það er kannski helsta spurningin sem vaknar í sambandi við það ákvæði sem kemur hérna inn. Réttur til frjáls vals á búsetu á að eiga við um alla en það hefur verið erfitt fyrir fólk með fatlanir að velja sér búsetu því að sveitarfélögin hafa kannski ekki getað staðið undir því að bjóða upp á rétta eða næga þjónustu. Það hefur líka verið mikil barátta fyrir þá sem fara með þennan málaflokk að fá það í gegn að fá fólk til vinnu við að sinna þessum einstaklingum. Mig langar að spyrja hvort ráðherrann telji að þetta ákvæði til bráðabirgða íþyngi sveitarfélögunum með tilliti til þessa málaflokks, hvort sveitarfélögin muni reyna að komast hjá þessu eða hvort þetta muni hjálpa fólki með fatlanir að velja sér búsetu þar sem það vill og hvort nægilega vel hafi verið fylgst með þessu hjá sveitarfélögunum, þó ég vilji ekki gera lítið úr reynslu sveitarfélaga í þessum málum.