144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum annars vegar og hins vegar lögum um málefni fatlaðs fólks.

Ég vil byrja á að segja varðandi þann þátt er lýtur að aðbúnaði og hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum að mér finnst sú viðbót er kemur fram í 1. gr. um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, vera mjög til bóta og gott að fá það inn í lög. Ég varð hins vegar hugsi varðandi það sem fram hefur komið í umræðunni um fyrri lið 1. gr. að þar ætti það að vera skýrara, ekki aðeins ætti ráðherra að vera heimilt að setja reglugerð, heldur ætti það að vera skýrara um að setja ætti reglugerð. Þetta er eitthvað sem ég held að við sem fáum málið til okkar í velferðarnefnd eigum að skoða nánar. Þetta er góð ábending og ég tek það alla vega til mín sem nefndarmaður, að þetta er eitthvað sem ég vil skoða frekar.

Í frumvarpinu er jafnframt fjallað um breytingar er varða hvíldartíma og næturvinnutíma starfsmanna sem starfa við NPA, þ.e. starfa við notendastýrða persónulega aðstoð. Mér finnst það bara vera ágætt en hlakka til að sjá umsagnir um þennan lið því að vegna eðlis þessara starfa finnst mér sjálfsagt að skoða það og veita undanþágur frá ákvæðum um vinnutíma. En auðvitað þarf að skoða þetta í samræmi við gildandi reglur af því að tryggja þarf kjör starfsfólksins um leið og við búum til þann sveigjanleika sem þessi störf, sem eru má segja alveg glæný flóra á vinnumarkaði okkar, kalla á. Við þurfum því að skoða þetta mjög vel og tryggja réttindi starfsmannanna en eins að búa til umgjörð sem hentar notendunum vel. Það er eitthvað sem ég held að nefndin eigi líka að skoða mjög vel.

Þá komum við að breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks þar sem verið er að framlengja tilraunaverkefnið um NPA um tvö ár. Ég varð í upphafi fyrir svolitlum vonbrigðum með það að við værum einungis að framlengja tilraunaverkefnið, því að ég er svolítið óþolinmóð þegar kemur að þeim málaflokki og hefði þess vegna svo gjarnan viljað að við værum bara að festa þetta í sessi núna. En ég tek hins vegar alveg undir þau sjónarmið að það sé ýmislegt sem við getum unnið betur til að tryggja að ramminn í kringum NPA sé sem allra bestur og er vel hægt að sættast á það sjónarmið. Þess vegna fagna ég mjög orðum hæstv. ráðherra um að hér sé ekki um að ræða tilraunaverkefni sem við ætlum svo að blása af, heldur sé einmitt verið að framlengja tilraunaverkefnið til þess að geta bætt umgjörðina.

Ég vil einnig taka undir orð þeirra sem hafa tekið til máls á undan mér í umræðunni um mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum taki ábyrgð á þessu máli og að þeir sinni því, en að þetta sé ekki einungis á herðum félagsmálastjóra eða embættismanna sem sinni þessu. Hér er auðvitað að hluta til um stórpólitískt mál að ræða, þ.e. hvers konar umgjörð við höfum um það hvernig við tryggjum fötluðu fólki sem besta þátttöku í samfélaginu. Það er eitthvað sem mér finnst snúa að kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum sem hafa fengið þennan málaflokk til sín, þeir verði að láta málið til sín taka og móta sér sýn og stefnu í þessum málum en ekki ýta því yfir á ráðna embættismenn til að finna út úr því að gera og græja.

Mig langar líka aðeins að vekja máls á því að um leið og starfsfólki eru búin góð kjör og vinnuaðstæður þá megum við ekki missa sjónar á því að hér er um að ræða starfsfólk sem er ráðið og á að vinna á forsendum notandans, að um leið og við tryggjum öll réttindi starfsfólksins þá megum við ekki ganga of langt þannig að það verði starfsfólkið sem fari að stýra notandanum. Hér er auðvitað um ákveðinn línudans að ræða kannski, en markmiðið er jú að fatlað fólk sem hefur notendastýrða persónulega aðstoð geti sjálft ráðið lífi sínu. Það er bara prinsipp sem við verðum alltaf að hafa í huga.

Í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, fyrrverandi ráðherra, kom fram að í upphafi hafi alveg verið opið hverjir gætu sótt um notendastýrða persónulega aðstoð, þ.e. að fólk með allar tegundir skerðinga ætti að vera gjaldgengt til að sækja um. Þá held ég að sé alveg gríðarlega mikilvægt að við skoðum hvernig önnur lönd hafa tryggt það að fólk með ólíkar skerðingar geti nýtt sér slíkt þjónustuúrræði. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að geta fjölgað samningum. Þetta eru ekki nema 55 samningar fyrir árið 2013 kemur hér fram í fylgiskjali með frumvarpinu, og 51 samningur fyrir árið 2014 og gert er ráð fyrir 61 samningi árin 2015 og 2016. Ég hefði því gjarnan viljað sjá að hægt væri að fjölga samningum þannig að það kæmi einmitt reynsla frá fleirum til að byggja á þegar vegið er og metið hvernig þjónustan er að virka, og þá sérstaklega fyrir fólk með ólíkar skerðingar. Þess vegna finnst mér svolítið alvarlegt að skoða það orðalag sem fjármálaráðuneytið notar í umsögn sinni í fylgiskjali II með frumvarpinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Miðað við þann fjölda einstaklinga sem gert er ráð fyrir að samið verði um þjónustu fyrir mundi hins vegar vanta 85 millj. kr. til viðbótar árið 2016 því ella þarf að fækka samningunum sem því nemur. Ekki hefur verið gert ráð fyrir slíkum viðbótarútgjöldum í langtímaáætlun um ríkisfjármálin.“

Þetta eru svolítið sterk eða þungvæg orð, finnst mér, inn í það hvernig þetta horfir til framtíðar vegna þess að ef ekki kemur til meira fjármagn þá hreinlega gæti, finnst mér, liggja í orðum fjármálaráðuneytisins að segja þyrfti upp einhverjum samningum sem þegar eru komnir. Og það finnst mér alveg gríðarlega alvarlegt mál meðan við þurfum einmitt að fara í hina áttina og fjölga samningum, annars vegar til að hafa úr meiru að byggja á eftir tvö ár þegar tilraunaverkefnið verður metið og svo hins vegar að það er fullt af fólki í samfélaginu sem lítur vonaraugum til þessa fyrirkomulags til að geta verið meiri gerendur í eigin lífi og stjórnað því sjálft hvernig það lifir. Þess vegna er þetta eitthvað sem við þurfum að taka alveg rosalega alvarlega.

Að sama skapi þurfum við líka að hugsa um launakjör starfsfólksins, það er ekki hæst launuðu starfsmennirnir í okkar samfélagi. Tímakaupið er rétt rúmar 3.000 kr. ef ég man rétt, sem er náttúrlega gríðarlega lágt. Eins og hæstv. ráðherra benti á áðan í ræðu sinni starfar mikið af ungu fólki við NPA. Þar með hefur starfsmannaveltan oft orðið mjög hröð og fólk staldrar stutt við. Þar held ég að við þurfum aftur að hugsa um fjármagnið þannig að hægt sé að tryggja starfsfólkinu sómasamleg laun svo að það haldist lengur í starfi og þar held ég að hagur starfsfólksins og notandans fari saman. Þess vegna þurfum við að skoða þetta heildstætt.

Í stórum dráttum má kannski segja að mér finnist þetta bara hið ágætasta frumvarp. Það er að ýmsu að huga í því sem ég held að við þurfum að skoða í nefndinni eins og ég hef farið yfir. Það sem við hér á Alþingi þurfum fyrst og fremst að gera er að tryggja nógu mikið fjármagn sem fari inn í NPA. Þó svo að málaflokkur fatlaðs fólks heyri undir sveitarfélögin þá finnst mér við eiga að skoða það alvarlega hvort kostnaðarskiptingin sé rétt eins og hún er núna þar sem sveitarfélögin greiða 80% af kostnaði samninga en ríkið 20% og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafi umsýslu með því framlagi. Þar held ég að við ættum að horfa til reynslu annarra landa. Ég þykist vita að sums staðar hafi verið farin sú leið til að jafna aðstöðumun fólks á milli sveitarfélaga að sveitarfélagið borgi einhvern ákveðinn grunnkostnað, segjum til dæmis 20 fyrstu tímana sem eru veittir, en svo komi ríkið inn og borgi restina. Nú þegar er ástand mála, getum við sagt, orðið þannig að af því að notendastýrða persónulega aðstoðin er bundin sveitarfélaginu, þá verða það ákveðnir átthagafjötrar fyrir þann einstakling sem á mjög erfitt með að flytja sig um set í annað sveitarfélag, vegna þess að þá þarf hann að byrja frá byrjun aftur að semja við sveitarfélagið að sækja um að fá þjónustu. Það er jú mjög misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig þjónustu þau veita.

Þetta er eitt af því sem ég held að við þurfum að taka til mjög rækilegrar skoðunar núna, þar sem tilraunaverkefnið verður framlengt um tvö ár, til að jafna aðstöðumun fatlaðs fólks eftir búsetu þess, eftir sveitarfélögum og til að fatlað fólk geti á sambærilegan hátt og aðrir þjóðfélagsþegnar flutt sig um set og búið þar sem því helst hugnast.