144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom aðeins inn á umsögn fjármálaráðuneytisins og hafði áhyggjur af því að það væri ekki búið að gera ráð fyrir fjármunum til verkefnisins til framtíðar eða út tilraunatímabilið. Þegar ég fæ frumvarp í hendurnar byrja ég alltaf að lesa greiningar fjármálaráðuneytisins vegna þess að mér finnst þær oft mjög greinargóðar. Mér finnst mjög mikilvæg ábending fjármálaráðuneytisins að það þurfi að gera ráð fyrir peningum svo að þjónustan gangi upp og markmiðið með þessu tilraunaverkefni til loka ársins 2016 nái fram að ganga.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því, hvort hún hafi nokkuð tekið þessu sem einhverri ógn. Þetta er að mínu áliti stuðningur við framkvæmdina.

Hæstv. ráðherra félagsmála og húsnæðismála sagði hér mjög skýrt áðan að vilji væri fyrir því að lögleiða NPA, það muni verða gert að loknu þessu tilraunatímabili. Því fagna ég og vona að hv. þingmaður geri það líka. En auðvitað verðum við að læra vel af reynslunni.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður viti af hverju höfum við ekki getað tekið mið af reynslu annarra Norðurlandaþjóða og mátað við okkar samfélag. Hver er helsti munurinn? Þekkir hv. þingmaður muninn á þjónustunni annars staðar á Norðurlöndum og hér?