144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa góðu ábendingu fyrir starfið í nefndinni. Þetta er eitthvað sem ég mun halda til haga og spyrja út í og reyna að koma í þann farveg að fatlað fólk geti auðveldlega flutt á milli sveitarfélaga og hver og einn einstaklingur þurfi ekki að finna upp hjólið þegar hann flytur heldur séu til einhver viðmið eða verkferlar sem hægt verði að ganga að, þó svo að auðvitað gildi engin ein lausn fyrir alla. Það mundi örugglega auðvelda fólki að hafa ákveðin viðmið svo að það viti eitthvað um réttindi sín eða við hverju það má búast þegar það flytur.

Það kemur reyndar fram í athugasemdum við frumvarpið að gengið hafi verið frá samningi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um bæði fjárhagslega og faglega úttekt á notendastýrðri persónulegri aðstoð. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að rýna vel í og sjá í hverju ábendingarnar liggi, hvað við þurfum að passa. Ég yrði ekkert sérstaklega hissa ef þetta með flutninginn á milli sveitarfélaga yrði eitt af því sem kæmi þar fram og örugglega ýmislegt fleira. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum vel, ekki bara fjárhagslegu úttektirnar heldur ekki síður þær faglegu.