144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir athyglisverða ræðu um margt. Mér finnst punktur þingmannsins um að kannski væri rétt að snúa hlutföllunum við þannig að ríkið borgi 80% og sveitarfélögin 20%, í stað þess að það sé öfugt, mjög athyglisverður. Þetta er samt sem áður framhald eða sami þankagangur og ég held að hafi verið þegar verið var að tala um að flytja þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga, þá vegast á þau sjónarmið að sveitarfélögin séu nær fólki og sveitarstjórnir skilja þarfir fólksins betur en stóri bróðir í höfuðstaðnum, ef svo má að orði komast. Það vegst á hvort er mikilvægara.

Mér finnst það samt sem áður mjög umhugsunarvert og ég spyr þingmanninn, vegna þess að henni er mjög vel kunnugt um þessi mál: Hvernig er þetta í nágrannaríkjunum? Er þetta almennt á hendi sveitarfélaganna eða er þetta miðlægt frá ríkinu? Getur þingmaðurinn frætt mig eitthvað um það?