144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að þessu leyti. Ég þykist vita að ég fari rétt með það að til dæmis börn sem eru einhverf eða eiga í einhverjum vandræðum og slíkt, það er mjög misjafnt hvaða þjónustu börn fá eftir sveitarfélögum. Sums staðar er þjónustan betri og sums staðar verri. Maður sér fyrir sér að þetta gæti gerst einmitt í þessu.

Þá veltir maður áfram fyrir sér ef þetta er svona og bundið við sveitarfélögin. Hv. þingmaður hefur sagt að fólk hefði ekki frjálsa för lengur, það má kannski segja, það væri ekki sama hvar það byggi. En ef þetta er þannig að meginparturinn er á ábyrgð sveitarfélagsins og svo flytur einn úr Reykjavík í Kópavog eða frá Akureyri til Kópaskers, ég veit ekki hvað, hvernig ætli það yrði? Það þarf að sækja um upp á nýtt, væri hugsanlegt að þessi einstaklingur fengi ekki þjónustu í nýja sveitarfélaginu vegna þess að fjármunir væru takmarkaðir, færri samningar, að það yrði hreinlega ekki í boði fyrir hann eða hana?