144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt málið að eins og staðan er núna, vegna þess að þjónustan er öll eða að langmestu leyti á hendi sveitarfélagsins, þarf einstaklingur sem flytur sig á milli sveitarfélaga að semja algerlega upp á nýtt um þjónustu sína. Þess vegna er ekkert víst að einstaklingur sem býr í Mosfellsbæ og hefur þar NPA og flytur síðan til Reyðarfjarðar fái sambærilegan samning. Ég veit það alla vega að ef ég þyrfti á notendastýrðri persónulegri aðstoð að halda mundi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég gæfi eftir það frelsi sem NPA veitir einstaklingi til þess að fara aftur inn í hefðbundin þjónustuúrræði.

Raunar gildir að ákveðnu leyti það sama um hefðbundin þjónustuúrræði. Til dæmis ýmis félagsleg aðstoð svo sem heimilishjálp, þrif á heimili og ýmislegt fleira, það er ólíkt milli sveitarfélaga hvaða kríteríur eru notaðar um það hvort fólk eigi rétt á þeirri þjónustu. Við erum ekki einungis að tala um þetta með NPA, þar er kannski bara þessi stóri drastíski munur.

Þessi vandi er nú þegar til staðar milli sveitarfélaganna inn í hefðbundnu þjónustuúrræðunum. Það held ég að ætti líka að vera okkur mikið umhugsunarefni og er ákveðin flækja sem varð kannski til með flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaganna. Þó svo hann geti haft ýmsa kosti eru líka ýmsar flækjur sem við erum síður en svo búin að greiða úr.