144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning því það felst auðvitað í hugmyndinni um notendastýrða persónulega aðstoð að allar fjárveitingar til rekstrarins fara til viðkomandi. Ég man eftir að hafa séð rekstrarreikning hjá einum einstaklingi sem var með notendastýrða persónulega aðstoð þegar ég var félagsmálaráðherra og það vakti athygli mína að sjá þar hina ólíku kostnaðarliði. Það fellur auðvitað allt þarna undir. Það eru til dæmis tryggingar því í mörgum tilvikum getur verið um að ræða fólk sem þarf umtalsverða aðstoð og það kann að þurfa líkamleg átök til að lyfta fólki, fólk kann að vera spastískt eða geta með öðrum hætti valdið skaða þeim sem sinnir þjónustunni o.s.frv. Það eru því umtalsverðir kostnaðarliðir sem þarna falla undir og skiptir auðvitað máli að greina rétt.

Það má segja að í hugmyndinni um notendastýrða persónulega aðstoð felist ekki bara uppbrot stofnanaþjónustu heldur líka með ákveðnum hætti einkarekstur á þjónustu sem áður var í höndum ríkisins. Þar af leiðandi sá ríkið um tryggingar og aðra slíka hluti og ríkið tryggir yfirleitt ekki vegna þess að ríkið er svo stórt að það axlar bara byrðar af því sem upp á kemur og svona mætti lengi telja. Við það að þessi rekstrarbreyting verður þá þarf auðvitað að sjá fyrir fullnægjandi fé og það held ég að sé kannski hluti af vandamálinu og hefur valdið ákveðnum byrjunarörðugleikum við þetta verkefni. Auðvitað er búið að vanáætla rekstrarkostnaðinn og fela ýmsa þætti rekstrarkostnaðar opinberrar þjónustu við fatlað fólk lengi þannig að þegar notendastýrð persónuleg aðstoð er tekin upp og það þarf raunverulega að fara að verðmeta alla þessa hluti sem aldrei hafa verið sérgreindir þá virkar þetta allt óskaplega dýrt.