144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála þingmanninum um það. Það er auðvitað mikilvægt að við erum núna raunverulega að tala um áframhald á verkefninu. Ég hrósa ríkisstjórninni fyrir það að hér er komið fram með hugmynd, þó svo menn segist ekki hafa náð nú þegar að gera ráð fyrir henni í fjárlögum. Það er komið fram með hugmynd um að heildarumfang samninga aukist á næstu tveimur árum og þannig komist enn frekari reynsla á þetta verkefni.

Stóra hættan í málinu er sú að menn haldi að það verði til peningar við að hræra peningunum út, þ.e. að það verði til aukageta við að láta fólk hlaupa hraðar. Það er auðvitað ákveðið hagræði að því að geta kannski samið við einstakling upp á hærri laun, að hann sé ekki alveg bundinn við sömu stífu vinnutímareglur og hann væri ella og þar með losnar um kostnaðinn við að kalla nýjan mann á vakt o.s.frv. Það eru hagræðismöguleikar í því og þess vegna styð ég líka að hér sé vikið með ákveðnum afmörkuðum hætti (Forseti hringir.) frá hvíldartímareglum og slíku, en þetta eru auðvitað hlutir sem þarf líka að gæta að, að ganga ekki of langt gagnvart stéttarfélögum og tryggja starfsréttindi þeirra sem þjónustuna veita.