144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir góða ræðu þar sem hann kom að mínu mati inn á ansi marga mikilvæga þætti sem við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum um notendastýrða persónulega aðstoð og umgjörðina sem er í kringum hana. Það sem mig langar að ræða við þingmanninn og eiga orðastað við hann um er einmitt það að réttilega hafa sumir, og jafnvel margir, ekki áhuga á því að vera í rekstri og hvað þá rekstri um reksturinn á sjálfum sér. Það er nú þegar svo að fólk er að útvista þessum verkefnum hvað varðar til dæmis umsýslu um laun og launatengd gjöld til til að mynda einkaaðila, sem eru þá líklega í rekstri til að hafa af því einhvern hagnað. Þar eru í mínum huga stóru hætturnar þegar kemur að NPA, ef við búum til þannig umgjörð að hér verði sóknarfæri fyrir einkaaðila til að fá gróða af umsýslunni og taka þar með kannski til sín talsvert af fjármagninu sem ætti að fara í þjónustuna við einstaklinginn. En á sama tíma erum við jafnframt með samvinnufélag um þennan rekstur eins og NPA-miðstöðin er, sem er samvinnufélag notanda þar sem peningurinn fer í eigin rekstur. Mig langar að heyra sýn hv. þingmanns á þessa dýnamík. Ætti ríkið kannski að vera að styðja fatlað fólk til að geta verið með samvinnurekstur þar sem féð fer í reksturinn en ekki í að greiða utanaðkomandi aðilum hagnað?